• Kjarnyrt
  • Posts
  • Enginn sjávarútvegur hefur fengið meiri meðgjöf frá ríkinu en sá íslenski

Enginn sjávarútvegur hefur fengið meiri meðgjöf frá ríkinu en sá íslenski

Talsmenn stórútgerða tala mikið um að þær séu að keppa á útivelli í erfiðri alþjóðlegri samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg annarra þjóða. Þess vegna sé lítið sem ekkert svigrúm til að borga meira en rétt það sem kostar að reka þjónustu við útveginn í veiðigjöld. Þegar saga þessa atvinnuvegar, sem sannarlega er mikilvæg stoð undir íslenska efnahagskerfinu og hefur náð miklum árangri á síðustu áratugum, er skoðuð er þó erfitt að álykta annað en að hann hafi notið meiri stuðnings hins opinbera en flestir.

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum sem fylgist með þjóðfélagsumræðunni að það eru erfiðir tímar hjá stærstu fyrirtækjunum í sjávarútvegi og hagsmunagæslufólkinu þeirra þessa dagana. Til valda er komin einhver ríkisstjórn sem leyfir þeim ekki lengur að ákveða einhliða hvers konar gjald geirinn greiði fyrir afnot af auðlind og á bakvið hana er þjóð sem bæði skilur og styður þessa vegferð.

Allt í einu er komið fram alls konar fólk úr kolröngum kimum samfélagsins sem leyfir sér að vera með skoðanir á því hvað sé réttlát skipting arðsins sem hlýst af nýtingu þjóðarauðlindar. Fólk sem er sannfært um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar, ekki einkaeign útgerða, og finnst tillögur útgerðarmanna um að fá íslenskufræðinga til að hrútskýra fyrir sér að sameign allra þýði í raun einkaeign fárra, aðallega hlægilegar.

Fólk sem er að svara skoðanakönnunum sem það hefur enga þekkingu til að vera að svara sem skila svo niðurstöðum sem eiga ekkert erindi í umræðuna vegna þess að niðurstaða þeirra er svo heimskuleg. Öfundsjúkt fólk sem þolir ekki að nágranninn verði ríkur á duglegheitum og hefnir sín með því að kjósa einhverja vinstri villinga til valda. Það sé enda ekki hægt að taka kannanir sem sýni að nær allir skilji það sem um er spurt, og nær allir styðji leiðréttingu veiðigjalda, óháð búsetu og stjórnmálaskoðunum, alvarlega. Það hlýtur að vera eitthvað að í aðferðarfræði kannana sem skila svona útkomu.

Svo finnst fólki, jafnvel einhverju sem hefur farið í framboð og komist á þing, auglýsingar stórútgerðarinnar, sem kostaði formúu að búa til og aðra formúu að birta, þannig að það sé örugglega enginn landsmaður sjái þær ekki, lélegar. Hafa meira að segja kallað þær sjálfsmark.

Orðræðan er, að mati geirans, svo ógeðfelld að hann býður við henni.

Á útivelli að keppa við ríkisstyrki

En verst er fyrir sjávarútveginn að þetta fólk þarna á Íslandi, sem kallar sig þjóðina en á ekki einu sinni kvóta, skilji ekki að atvinnuvegurinn sé einstakur á heimsvísu. Að hér hafi hópur yfirburðarmanna, einn og án aðstoðar, náð að búa til eina arðbæra sjávarútveginn á jörðinni sem, líkt og sagði í einni yfirlýsingunni, „keppir á útivelli í erfiðri alþjóðlegri samkeppni, við ríkisstyrktan sjávarútveg annarra þjóða.“

Það pirrar hagsmunagæslufólkið að það sé ekki verið að nota hagfræðilegu hugtakaskrípin sem þau eru að segja fólki að nota. Að það sé hlegið að því að geirinn hreyki sér af risavöxnu skattspori, sem þýðir ekki annað en að hann og þeir sem vinna hjá honum greiði skatta eins og önnur fyrirtæki og aðrir einstaklingar í landinu, og að það kaupi fáir annað en að eðlilegt sé að greiða auðlindarentu til viðbótar vegna aðgengis að þjóðarauðlind.

Þessir mölbúar eru ekkert að skilja að það er ekkert svigrúm hjá tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins – þar sem átta eru að stærstum hluta í eigu fjögurra fjölskyldna og eins kaupfélags sem eiga samtals næstum 500 milljarða króna hið minnsta í auð – sem munu greiða 67 prósent af leiðréttu veiðigjaldi til að standa í því. Það þarf að vera til peningur til að kaupa majónesverksmiðjur, fleiri fjölmiðla, hamborgarastaði, tryggingafélög, heildsölur, miðbæi. Og svo framvegis.

Tíminn er að renna út fyrir þessa vitleysinga í þessari þjóð til að kveikja. Ef það á í alvöru að taka rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegs úr 24 í 21 prósent á sama tíma og það er níu prósent almennt í viðskiptahagkerfinu þá þarf einfaldlega að sýna þeim að það gangi ekki með því að flytja aflann óunninn úr landi til láglaunalanda þar sem stærstu útgerðarfyrirtækin eiga þegar verksmiðjur, enda sennilega stærstu leikendur í sjávarútvegi í Evrópu þegar allt er talið saman.

Fólk virðist bara hafa miklu meiri áhuga á staðreyndum en áróðri.

Leigusalinn vill markaðsverð í leigu

Og það má alveg, án allrar kerskni, segja það upphátt að íslenskur sjávarútvegur stendur mjög vel. Hann er gríðarlega mikilvæg stoð undir íslenska efnahagskerfinu og það hefur skapast svigrúm til að fjárfesta mikið í honum á undanförnum árum samhliða því að eigið fé eigenda útgerða hefur vaxið á ljóshraða upp í mörg hundruð milljarða króna þrátt fyrir tugmilljarða króna arðgreiðslur og fjárfestingar á hverju ári.

Með leiðréttingu veiðigjalda er enginn að taka fyrirtækin af þessu fólki sem hefur rekið þau, heldur er einungis verið að benda þeim á að sjávarútvegur nýtur þeirrar sérstöðu að vera að nýta auðlind sem er ekki í hans eigu. Leiðrétt veiðigjöld og breytt lög um gagnsæi eru einfaldlega skynsamleg skref í átt að græða svöðusár sem er á þjóðarlíkamanum vegna deilna um höfuðatvinnuveg landsins. Deilur sem snúast um að leigjandinn telji sig eiga eignina sem leigusalinn leigir honum á sama tíma og leigusalinn vill fá markaðsverð í leigu.

Flestir sem eiga íbúð og ákveða að leigja hana út myndu ekki sætta sig við ef leigjandinn ætlaði einhliða að ákveða að hann myndi borga langt undir markaðsverði í leigu. Mynd: Jakub Zerdzicki

Mér finnst ansi gaman af þessum málflutningi öllum saman og er þeirrar skoðunar að því meira sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og þingmennirnir þeirra harmakveina í fjölmiðlum, gegnum auglýsingar eða í pontu Alþingis, því fleiri sjá skýrt hversu mikið raunveruleikarofið er.

Að því sögðu þá viðurkenni ég að það er einn angi af málflutningi þessa sambræðings stærstu fyrirtækjanna í sjávarútvegi, fjölmiðlanna sem þau eiga og þingmannanna sem endurtaka talpunktana sem SFS fóðra þá sífellt af, sem ég á mjög erfitt með. Og það eru stærilætin um að á Íslandi hafi sjávarútvegur ekki fengið neinn ríkisstuðning á meðan að svo hátti um alla sem hann þurfi að keppa við úti í hinum stóra heimi.

Það má nefnilega halda því fram með góðum rökum að enginn sjávarútvegur í heiminum hafi fengið meiri meðgjöf frá ríkinu en sá íslenski.

Fjármagnað með lakari lífskjörum

Þar má til að byrja með vitna í grein sem Óli Björn Kárason, einu sinni þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, birti fyrir um ári. Þar sagði að fyrir níunda áratug síðustu aldar hafi sjávarútvegur áratugum saman verið fjármagnaður með lakari lífskjörum almennings. Með „millifærslum, gengisfellingum og pólitískum afskiptum.“ Þeir flokkar sem stýrðu þessari vitleysu að mestu voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkar, annaðhvort saman eða í sitthvoru lagi.

Fyrir rúmlega 40 árum, árið 1983, var kvótakerfið búið til svo hægt yrði að höggva á þennan vítahring. Við úthlutun var miðað við aflareynslu síðustu þriggja ára og hópur fólks fékk úthlutað kvóta, þjóðareign, án endurgjalds. Þau borguðu krónur núll fyrir takmörkuð gæði í eigu annars sem hafði þegar tekið á sig gríðarlegan kostnað við að halda þeim við, líkt og kom skýrt fram í grein Óla Björns.

Nokkrum árum síðar ákváðu stjórnmálamenn að leyfa þessum hópi að selja þessa eign sína á milli. Framselja kvótann. Eign sem þeir áttu ekki og borguðu ekki fyrir. Þetta gerði það að verkum að viðskipti fóru að vera með þessa vöru sem var í upphafi lánuð án greiðslu.

Á þessum tíma héldu tíu stærstu útgerðirnar á um 20 prósent af öllum kvóta. Framsalið ýtti á samþjöppun. Fyrir vikið hefur kvótinn sem tíu stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi halda á farið úr því að vera um 20 prósent heildarinnar í 58 prósent. Þá er ekki gert ráð fyrir að margir innan efstu tíu tengist eigendaböndum innbyrðis.

Fékk að veðsetja eign sem hún á ekki

Árið 1997 var svo gefin heimild til að veðsetja aflaheimildir fyrir lánum, sem voru notuð til að kaupa upp kvóta eða eftir atvikum aðrar eignir. Fyrir vikið hækkuðu aflaheimildirnar hratt í verði og mjög margir urðu mjög ríkir. Mjög, mjög ríkir.

Það á bæði við þá sem héldu áfram í útgerð en ekki síður þá sem seldu kvótann „sinn“. Margir slíkir gátu skyndilega sest í helgan stein langt fyrir aldur fram og tryggt næstu kynslóðum afkomenda áhyggjulausa ævi. Raunar varð til meiri auður innan fárra fjölskyldna með þessari aðgerð en hafði nokkru sinni áður verið í íslensku samfélagi.

Þetta fyrirkomulag leiddi til þess að kvótinn hækkaði hratt í verði. Svo hratt að sú skoðun varð almenn að virði hans væri verulega ofmetið. Á meðal þeirra sem það gerðu var Seðlabanki Íslands.

Í grein eftir Karl Fannar Sævarsson mannfræðing, sem birtist í Kjarnanum sumarið 2018, kom fram að þegar „Seðlabankinn varaði við því árið 2000 að veð í kvóta væru of há til að standa undir sér var þorsksígildið um 800 krónur á kíló. Þegar bankarnir féllu var það komið upp í 4.400 krónur. Það var mun meira en nokkur útgerð eða fjárfestir gat séð sem hagkvæma fjárfestingu á kvóta. Árin 2007 og 2008 var heildarvirði kvóta á Íslandi um tvö þúsund milljarðar eða fimm sinnum meira en árlegur hagnaður íslenska sjávarútvegsins.“

Við bankahrunið lækkaði virði kvótans um helming og árið 2012 var þorskígildið komið niður í um 2.000 krónur.

Í grein sinni dró Kári þá ályktun að „framboð á lánsfé frá bönkunum hafi haft meiri áhrif á verð á aflahlutdeildum heldur en raunverulegt verðmæti þeirra.“

Til að setja þessar tölur í samhengi þá sagði Guðmundur Kristjánsson, formaður stjórnar SFS, í nýlegu viðtali við Bylgjuna að bókfært heildarvirði kvótans í dag væri um 500 milljarðar króna.

Þegar útgerðir fóru á kúpuna

Í árslok 2008, árið sem bankarnir hrundu, var eigið fé íslensks sjávarútvegs sem heildar neikvætt um 80 milljarða króna, aðallega vegna þess að atvinnuvegurinn hafði tekið lán í erlendum gjaldmiðlum í stórum stíl, með veði í kvótanum, og gengi krónunnar hafði hríðfallið. Heildarskuldir sjávarútvegarins gagnvart bönkunum stóðu í 560 milljörðum króna á þeim tíma.

Nýir bankar voru endurreistir með handafli ríkisins, sem átti eða bar alla ábyrgð á þeim öllum til að byrja með. Við þær aðstæður skapaðist möguleiki á að innkalla kvótann sem hafði verið veðsettur fyrir mörgum þessara lána.

Pólitískt skipuð sáttarnefnd ákvað hins vegar að gera þetta ekki. Þess í stað var ákveðið að semja við flest sjávarútvegsfyrirtækin um aðlögun á lánum, vöxtum og afborgunum. Afskriftir ríkisbanka vegna þessa hlupu á tugum milljarða króna.

Í skýrslu sáttarnefndarinnar frá 2010 var lagt til að ráðist yrði í „frekari úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og setja skýrar reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja“ og að gerðir yrðu „samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr“.

Semsagt, afskriftir og allir fengu að halda fyrirtækjunum sínum gegn því að fara að greiða veiðigjöld, samþykkja meira gagnsæi og viðurkenningu á því að þjóðin eigi auðlindina.

Þegar vinir lækkuðu veiðigjöld um tugi milljarða

Veiðigjöldum var komið á með herkjum, undir flauti flotans sem siglt var í land, árið 2012. Ríkisstjórn Villtu strákanna úr Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, undir forsæti núverandi formanns Miðflokksins, hóf samstundis að rífa þau niður þegar hún tók við völdum árið 2013 með því að innleiða á ný frádrátt bókhaldslegra afskrifta og vaxtagjalda.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, sem þá var leiddur af núverandi formanni Miðflokks, og Sjálfstæðisflokks hófst strax handa við að lækka veiðigjöld þegar hún tók við 2013. Mynd: RÚV

Þegar það lá fyrir árið 2018 að gengisbreytingar væru að leiða til hækkunar á veiðigjöldum þá var ákveðið að endurskoða lögin svo það myndi nú alls ekki gerast. Indriði Þorláksson hagfræðingur hefur lýst þeirri breytingu þannig að snúið hefði verið „til baka til þeirrar skilgreiningar á auðlindarentu sem lögin frá 2012 byggðu á, en með veigamiklum frávikum til að halda veiðigjöldunum eins lágum og unnt var með bókhaldstækni. Helstu frávikin voru a) aðgreining veiða og vinnslu, b) að láta afskriftir og jafnháa vexti koma í stað reiknaðs fjármagnskostnaðar og c) að ákveða fjárhæð veiðigjalda án röklegra tengsla við eignarrétt eiganda auðlindarinnar.“

Ef sú leiðrétta útfærsla á veiðigjaldi sem nú er verið að innleiða hefði verið við lýði á árunum 2014-2023, og það hefði skilað 7,5 milljörðum króna í viðbótartekjur fyrir ríkissjóð á hverju ári þess áratugar, þá hefði ríkissjóður haft úr 75 milljörðum króna til viðbótar að spila við að vinna á innviðaskuld og bæta þjónustu við landsmenn. Þess í stað fóru þeir 75 milljarðar króna til útgerða. Ef þetta leiðrétta veiðigjald hefði verið innheimt hefði rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegsfyrirtækja farið úr 24 í 21 prósent, á sama tíma og það var níu prósent að jafnaði í atvinnulífinu. Útgerðin hefði áfram verið rúmlega tvisvar sinnum arðbærari fyrir eigendur sína en gengur og gerist.

Þá er ótalið að árið 2019 var ákveðið að færa makríl, sem synt hafði inn í íslenska landhelgi nokkrum árum fyrr, í kvóta án endurgjalds. Sá kvóti, sem var talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði á þeim tíma, fór að langmestu leyti til stærstu útgerða landsins. Þetta var launað með því að nokkrar stórútgerðir fóru í mál við ríkið og kröfðust yfir tíu milljarða króna í bætur vegna þess að þær fengu ekki nægilega mikinn kvóta. Eftir að fjölmiðlar upplýstu um bótakröfuna hættu þær allar við nema Vinnslustöðin og dótturfélag hennar Huginn. Það mál bíður nú þess að vera tekið fyrir í Hæstarétti.

Að lokum verður að benda á alla þá hundruð milljarða króna af opinberu fé sem farið hafa í uppbyggingu innviða sem sjávarútvegur nýtir, til dæmis í veittri þjónustu, uppbyggingu hafna og lagningu eða viðhald vega sem trukkar útgerðarinnar slíta meira en flestir aðrir án þess að gjald sé greitt í samræmi við það slit. Hægt er að lesa um það hér:

Hvað er ríkisstuðningur?

Nú skulum við draga þetta saman. Fyrst studdi almenningur við sjávarútveg áratugum saman með því sem fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins kallar lakari lífskjör. Svo úthlutaði ríkið gríðarlega verðmætri og takmarkaðri þjóðarauðlind til takmarkaðs hóps landsmanna án þess að krefjast greiðslu fyrir, leyfði svo þessum hópi að selja þessa takmörkuðu auðlind, hirða ágóðann og á endanum að veðsetja hana til að kaupa sér aðrar eignir. Afleiðingin var meðal annars sú að 28 bæir og þorp hið minnsta misstu tilverugrundvöll sinn vegna samþjöppunar á kvótaeign.

Þegar allt var komið í steik, og færi voru til að ganga að veðsettum kvóta, var ákveðið að gera það ekki heldur láta ríkisbanka afskrifa risaskuldir margra í greininni. Þegar loks var sett á veiðigjald þá var það útþynnt með frádráttarbærni og verulegri lækkun þegar peð útvegsins sátu í ríkisstjórnum og þegar makríll sigldi inn í lögsöguna þá var ákveðið að gefa þann kvóta líka, að langmestu leyti til nokkurra stórútgerða.

Allan þennan tíma hefur samfélagið stutt við útgerðina með því að sjá henni fyrir allri þjónustu, uppbyggingu hafna og með lagningu og viðhaldi vega.

Segið mér, og verið heiðarleg, er þetta ekki ríkisstuðningur?

Reply

or to participate.