- Kjarnyrt
- Posts
- Fólk á stórum bílum með negld dekk sem getur kosið í nóvember en ekki fundað í febrúar
Fólk á stórum bílum með negld dekk sem getur kosið í nóvember en ekki fundað í febrúar
Valdabarátta er hafin innan Sjálfstæðisflokksins. Margir flokksmenn virðast ganga út frá því að Bjarni Benediktsson sé á síðustu metrunum sem formaður flokksins eftir að hafa leitt hann í gegnum verstu kosningar hans í sögunni. Til að reyna að stýra atburðarásinni reynir flokksforystan nú að fresta landsfundi og kaupa sér með því tíma til að hanna „rétta“ niðurstöðu.
Snemma í október síðastliðnum sögðust einungis 31,1 prósent svarenda í könnun Gallup á þeim tíma vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græn eða Framsóknarflokkinn, sem þá mynduðu ríkisstjórn. Það var minnsta fylgi sem þeir höfðu nokkru sinni mælst með frá því að flokkarnir hófu samstarf síðla árs 2017 og ansi langt frá þeim 54,3 prósentum sem þeir fengu í kosningunum haustið 2021. Helgina 4-6 október héldu Vinstri græn landsfund og samþykktu ályktun sem endaði á þeim orðum að til þess að hægt yrði „að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram telur landsfundurinn að takast verði á við þau knýjandi verkefni sem við blasa á félagslegum grunni. Jafnframt telur fundurinn að ganga verði til kosninga með vorinu.“
Viku síðar sleit Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórnarsamstarfinu og varð þannig fyrsti formaður þess flokks til að gera það í sögu hans. Þetta var í þriðja sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn Bjarna hafði átt aðild að ríkisstjórn sem sat ekki út kjörtímabilið. Honum hafði raunar einungis einu sinni tekist það frá árinu 2013, þegar flokkurinn kom aftur í stjórn. Það gerðist 2017 til 2021 á meðan að hefðbundin stjórnmál voru tekin úr sambandi svo hægt yrði að berjast við heimsfaraldur og afleiðingar hans.
Rökin sem Bjarni gaf fyrir því að slíta stjórnarsamstarfinu voru nokkuð þokukennd. Hann ýjaði að því að ákveðin útlendingamál hefðu riðið baggamuninn, en vildi samt ekki fullyrða það. Hann kvartaði yfir ályktun þingflokks Vinstri grænna um ákvörðun hans um atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum og kallaði hana „óvanalega“. Á endanum var sú skýring sem hann gaf sem virtist innihalda mestan sannleik eftirfarandi: „„Það fer best að ríkisstjórn hafi sameiginlega sýn.“
Veðjað á vetrarkosningar
Svo var kosið um hávetur, 30. nóvember. Óvissa var um hvort hægt yrði að kjósa nánast allt fram á síðasta dag vegna slæmrar vetrarfærðar og vonskuveðurs. Útlendingamál enduðu sem fótnóta í kosningunum þrátt fyrir tilraunir ýmissa til að gera þau að aðalatriði, enda önnur mál mun ofar á dagskrá landsmanna. Þjóðin var, og er, upptekin af heilbrigðismálum, efnahagsmálum, verðbólgu, húsnæðis- og lóðamálum og kaus fyrst og fremst um þau. Fyrrverandi stjórnarflokkar fengu minna upp úr kjörkössunum en þeir mældust með rétt fyrir kosningar, eða samanlagt 29,5 prósent atkvæða. Vinstri græn eyddu sér út úr íslenskum stjórnmálum og náðu ekki einu sinni þröskuldinum til að fá framlag úr ríkissjóði. Framsókn fékk sína verstu niðurstöðu í sögu flokksins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem fór í fyrsta sinn undir fimmtungsfylgi, líka. Skilaboð kjósenda voru skýr: Við viljum ykkur ekki lengur.
Allskyns kenningar voru uppi um ástæður þess að Bjarni ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu á nákvæmlega þeim tíma sem hann gerði það. Ein sú augljósasta var að Sjálfstæðisflokkurinn vildi einfaldlega verða fyrri til. Samstarfinu var efnislega lokið eftir ályktun landsfundar Vinstri grænna og með því að skrifa eigið handrit, í stað þess að fylgja því sem Svandís Svavarsdóttir hafði lagt upp, myndi Sjálfstæðisflokkurinn ná einhverskonar frumkvæði.
Önnur var að skammvinn kosningabarátta myndi vinna með Sjálfstæðisflokknum. Hann ætti auðvelt með að ræsa sínar vel þekktu kosningavélar, virkja fjölda fólks til verka og ætti miklu meiri pening en hinir flokkarnir.
Ef það tækist að láta kosningarnar hverfast um hörð mál eins og útlendinga og orku sem hann reyndi að setja á dagskrá, í stað þess að láta þær verða að þjóðaratkvæðagreiðslu um störf ríkisstjórnarinnar, þá gæti flokkurinn híft sig upp í nægjanlegt fylgi til að eiga möguleika á frekari valdasetu.
Stórtap og áhrifaleysi útskýrt sem „varnarsigur“
Enn önnur kenning var sú að með því að boða til skyndilegra vetrarkosninga þá myndi Bjarni Benediktsson, sem hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins síðan snemma árs 2009, hafa mun betra tækifæri til að ákveða þróun flokksins í nánustu framtíð. Ef kosningarnar færu vel þá gæti hann setið áfram. Ef þær færu illa, líkt og þær gerðu, þá væri Bjarni búinn að taka skellinn, stutt væri næsta landsfund og nýr formaður gæti tekið við eftir hann með nokkuð hreint borð.
Valdamesti stjórnmálamaður Sjálfstæðisflokksins er nú bæjarstjórinn í Kópavogi. Þessa stöðu hefur Bjarni kallað „varnarsigur“.
Ljóst er að vilji Bjarna hefur lengi staðið til þess að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins, taki við af honum. Skref í þá átt var stigið þegar hún tók við fjármála- og efnahagsráðuneytinu af honum í nokkra mánuði eftir að Bjarni þurfti að segja af sér vegna þess að hann reyndist vanhæfur til að selja föður sínum hlut í ríkisbanka. Annað stórt skref var flutningur Þórdísar Kolbrúnar út Norðvesturkjördæmi, fámennasta kjördæmi landsins sem hún hefur ekki búið í árum saman, yfir í höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins og heimavöll Bjarna, Kragann. Eitthvað átti framlínufólkið ekki upp á pallborðið hjá kjósendum flokksins þar enda strikuðu 3,9 prósent þeirra út nafn Þórdísar Kolbrúnar og 3,6 prósent nafn Bjarna. Niðurstaða kosninganna varð svo, líkt og áður sagði, sú versta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið, eða 19,4 prósent atkvæða. í annað sinn frá því fyrir seinni heimsstyrjöld er Sjálfstæðisflokkurinn ekki stærsti flokkur landsins á þingi og flokkurinn hefur aldrei haft jafn fáa þingmenn og nú síðan að 63 þingmanna fyrirkomulagið var tekið upp.
Ofan á allt annað þá komst Sjálfstæðisflokkurinn ekki í ríkisstjórn, en hann þar hefur hann dvalið í 29 af síðustu 33 árum. Valdamesti stjórnmálamaður Sjálfstæðisflokksins er nú bæjarstjórinn í Kópavogi. Þessa stöðu hefur Bjarni kallað „varnarsigur“.
Maðurinn sem getur bara ekki náð að flytja ávarp
Bjarni er persónulega með nokkuð áhugaverða tölfræði. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins næst lengst allra, eða frá því snemma árs 2009. Einungis Ólafur Thors sat lengur á þeim stóli en hann. Í formannstíð Bjarna klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn vegna svikinna loforða um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna að Evrópusambandinu, bar fyrir sig „pólitískan ómöguleika“ og árið 2016 varð Viðreisn til. Bjarni hefur leitt flokkinn sinn í gegnum sex af sjö verstu kosningum hans í sögunni. Hann náði að vera forsætisráðherra tvisvar. Í fyrra skiptið entist hann í 323 daga og varð fyrsti forsætisráðherrann í sögunni til að ná ekki að flytja áramótaávarp frá árinu 1931, þegar sá siður var tekinn upp. Í seinna skiptið náði hann 257 dögum, rétt missti af réttinum til að flytja blessað ávarpið og varð því líka annar forsætisráðherrann til að flytja það.
Þegar Bjarni tók við því embætti í apríl sýndu kannanir að hann væri sá flokksleiðtogi sem fæstir vildu sem forsætisráðherra. Slíkar sýndu líka að þrír af hverjum fjórum landsmönnum báru lítið traust til Bjarna og að það traustleysi hefur verið viðvarandi í langan tíma. Einungis 17 prósent sögðust bera mikið traust til hans. Hann var sá ráðherra sem langflestir vantreystu en langfæstir treystu. Frá því að hann hóf sinn ráðherraferil árið 2013 hefur vantraust í hans garð einungis einu sinni mælst undir 50 prósent, í einni mælingu í kórónuveirufaraldrinum.
Hentar illa fyrir andstöðu
Í könnun sem birt var í september kom fram að um 39 prósent svarenda töldu að Bjarni hefði staðið sig verst allra ráðherra á síðasta kjörtímabili. Sú sem var í öðru sæti var með tíu prósent og enginn annar náði yfir fimm prósent. Ríkisstjórnin sem hann leiddi part úr þessu ári endaði tilveru sína sem óvinsælasta ríkisstjórn sögunnar. Einungis 23,6 prósent landsmanna studdu hana í síðustu mælingu Gallup. Eina ríkisstjórnin sem hafði endað líf sitt með minna en 30 prósent stuðning áður en kom að stjórninni hans Bjarna var hrunstjórn Geirs H. Haarde, sem mældist með 26 prósent stuðning í janúar 2009, rétt áður sú stjórn sprakk og Bjarni tók við formennskunni.

Þróun á stuðningi við ríkisstjórnir síðustu áratuga. Mynd: Gallup
Það er ágætt að rifja upp að það fór Bjarna ekki sérlega vel að vera í stjórnarandstöðu. Hann stóð afar veikt í lok eina kjörtímabilsins sem hann hefur dvalið í slíkri. Hart var sótt að honum innan flokks fyrir kosningarnar 2013 þegar allt stefndi í sögulegt afhroð. Þann 11. apríl það ár birti Viðskiptablaðið niðurstöður skoðanakönnunar þar sem kom fram að mun fleiri sögðust reiðubúnir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá varaformaður flokksins, væri formaður í stað Bjarna Benediktssonar. Sama kvöld sat Bjarni fyrir svörum í Forystusætinu, kosningaþætti á RÚV. Þar var hann spurður út í þessa skoðanakönnun, sagðist vera að íhuga stöðu sína og útilokaði ekki að segja af sér. Bjarni virtist beygja af í viðtalinu. Tilfinningarnar virtust vera að bera hann ofurliði.
Hvort sem það hafi ráðið úrslitum eða ekki þá ákvað Bjarni að halda áfram, náði að hífa fylgið aðeins upp og mynda ríkisstjórn með sigurvegurum kosninganna, Framsóknarflokki. Bjarni sat óslitið í ríkisstjórn frá þeim degi og til 21. desember síðastliðins.
Ólga vegna stöðu og stefnu
Það fer ekki framhjá neinum sem fylgist með stjórnmálum að það er mikil ólga innan Sjálfstæðisflokksins vegna stöðu hans og verðandi áhrifaleysis. Flokkurinn hefur átt erfitt með að ákveða hvort hann vilji vera sá hófsami íhalds-, fyrirgreiðslu- og valdaflokkur sem hann hefur að mestu verið í gegnum tíðina eða hvort hann eigi að elta ýmis hægri-trend sem hafa orðið ráðandi í löndunum í kringum okkur og hverfast meðal annars um harða afstöðu gegn pólitískum rétttrúnaði, aukna þjóðernisrembu og útlendingaandúð. Úr hefur orðið moð og óskýr persónuleiki sem höfðar ekki nægjanlega mikið til nýja hægrisins en fælir hófsamari og frjálslyndari kjósendur frá. Vonin um að Viðreisn muni snúa „heim“ er að fullu farin nú þegar flokkurinn hefur myndað ríkisstjórn með félagshyggjuflokkum ofan á að stýra með þeim í Reykjavík árum saman.
Þaulseta Bjarna hefur reynt á þá sem vilja fá að spreyta sig í forystusætinu. Guðlaugur Þór Þórðarson og stuðningsmenn hans töldu sig ekki geta beðið lengur árið 2022 og hlóðu í formannsslag, sem tapaðist nokkuð afgerandi. Þegar Bjarni fór um tíma í utanríkisráðuneytið og fór að deila út umdeildum bitlingum til nánustu samstarfsmanna sinna voru ansi margir vissir um að hann væri að huga að því að stiga út af sviðinu. Þetta væri ekki hegðun sem formaður sem ætlaði í gegnum aðrar kosningar myndi sýna af sér. Það breyttist allt þegar Guðni Th. Jóhannesson ákvað að hætta sem forseti í byrjun árs, Katrín Jakobsdóttir ákvað að reyna að taka við af honum og Bjarni fékk skyndilega tækifæri til að verða forsætisráðherra aftur. Mánuðina áður hafði Þórdís Kolbrún verið að máta sig opinberlega við formennskuframboð og reyndi meira að segja að mynda ríkisstjórn með Viðreisn, og án Vinstri grænna, við brotthvarf Katrínar. Sú tilraun, sem margir töldu vera kraftspil af hennar hendi, mistókst illa og Bjarni settist aftur í bílstjórasætið.
Í lagi að kjósa um vetur en ekki að funda um vetur
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að fara fram í lok febrúar næstkomandi. Það yrði fyrsti slíki fundurinn í næstum þrjú ár, en þeir eiga að jafnaði að fara fram á tveggja ára fresti. Nú eru uppi tilraunir hjá flokksforystunni til að fresta honum fram á haust og bornar á torg kostulegar skýringar á nauðsyn þess. Sú hlægilegasta snýst um að veður og færð geti verið slæm í febrúar og því heillavænlegt að færa landsfundinn inn á haustið. Þetta kemur frá sama fólki og rauf þing til að láta kjósa nýtt í lok nóvember og frá flokki þar sem sennilega er að finna flesta stóra bíla, nagladekk og keðjur af öllum slíkum í landinu.
Önnur skýring er sú að landsfundurinn hafi átt að vera upptaktur af kosningum og nú þegar þær eru þegar afstaðnar liggi ekkert á að halda hann.

Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins sem var kjörin á landsfundi árið 2022. Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn
Við þessar gaslýsingar virðast allar flóðgáttir hafa opnast og gagnrýnin á flokksforystuna flaut skýrt upp á yfirborðið. Það er ekki algengt hjá flokki sem leggur mikið upp á því að halda deilum sín á milli innanhúss, standa saman þegar á þarf að halda og koma fram eins og einn maður. Nú er öskrað á torgum, rifist á samfélagsmiðlum og talað frjálslega í fréttatímum.
Margir að máta sig við
Það er greinilegt og skýrt ákall til staðar víða um endurnýjun á forystufólki og áherslum. Að margir flokksmenn telji Sjálfstæðisflokkinn vera búin að týna kjarna þess sem þeir telja vera hina einu sönnu, og hreinu, Sjálfstæðisstefnu. Stefnu sem er reyndar túlkuð á afar mismunandi hátt hjá ólíkum hópum innan flokksins.,
Auk Þórdísar Kolbrúnar má reikna með því að Guðlaugur Þór, sem er með mikil ítök í grasrótarfélögum í Reykjavík, reyni aftur. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, með afl Morgunblaðsins á bakvið sig, hefur sagt fólki í kringum sig að hún ætli sennilega fram og Guðrún Hafsteinsdóttir er talin vera að kanna stuðning við sig. Vitað er að áhrifahópar innan flokksins séu líka að líta út fyrir raðir kjörinna fulltrúa í leit að svörtum hesti og bollaleggingar hafa verið um Halldór Benjamín Þorbergsson og jafnvel Stefán Einar Stefánsson sem kandídata í þeim efnum. Slík framboð eru þó flókin þar sem erfitt myndi reynast að vera leiðtogi stjórnmálaflokks án þess að vera með þingsæti, sérstaklega þar sem kjörtímabilið er nýhafið.
Hinn raunverulegi tilgangur þess að fresta landsfundi er augljóslega sá að kaupa tíma svo hægt sé að koma í veg fyrir að Guðlaugur Þór eigi upptakt að farsælu formannsframboði, fækka öðrum frambjóðendum og krýna þann eftirmann sem Bjarni og hans fólk vill. Það ætti að skýrast á allra næstu dögum hvort það takist eða hvort óánægjan hjá stórum hópum innan flokks sé orðin svo mikil að að hún nái að sjóða upp úr pottinum.
Reply