• Kjarnyrt
  • Posts
  • Samfélag sem á tíu þúsund milljarða þarf að virka fyrir alla, ekki bara suma

Samfélag sem á tíu þúsund milljarða þarf að virka fyrir alla, ekki bara suma

Á síðasta ári urðu til næstum 600 nýir milljarðar króna í auð á Íslandi. Ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín stærra hlutfall þessa nýja auðs en þau hafa gert frá árinu 2007, þegar upplásin bankabóla ýkti allt. Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum sem hafa falið í sér aukna skattstyrki til best settu hópa samfélagsins, húsnæðisstuðning sem aðallega hefur verið beint til þeirra tekjuhæstu og ívilnað fjármagnseigendum með ýmsum hætti hefur aukið á þessa lífskjaragliðnun. Nú er það tímabil búið. Hér eftir verður lögð áhersla á að bæta líf allra, ekki bara sumra.

Eigið fé landsmanna, eign þeirra eftir að búið er að draga skuldir frá, var næstum tíu þúsund milljarðar króna um síðustu áramót. Nánar tiltekið var það nákvæmlega 9.461 milljarður króna. Þetta er í fyrsta sinn sem hrein eign Íslendinga fer yfir níu þúsund milljarða króna markið.

Á árinu 2024 jókst auðurinn alls um 593 milljarða króna, sem er mun minni aukning en var á árunum 2022 og 2023. Á þeim tveimur árum jókst hann reyndar samanlagt um næstum þrjú þúsund milljarða króna, sem var algjört met. Ástæður þeirrar aukningar liggja í tvennu. Annars vegar í því að fjármagnstekjur – vextir, arður, söluhagnaður hlutabréfa, leigutekjur af lausafé og af útleigu fasteigna – ruku upp.

Hins vegar vegna bólu á húsnæðismarkaði, sem skilaði því að húsnæðisverð hækkaði meira á Íslandi en í nokkru öðru aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Það leiddi til þess að þeir sem áttu húsnæði – rúmlega 70 prósent þjóðarinnar – juku auð sinn gríðarlega á nokkrum árum. Hinir, tæpur þriðjungur hennar, sátu hins vegar eftir. Þessar tölur sýna svart á hvítu að lífsgæði fólks á Íslandi hafa ráðist fyrst og síðast af stöðu þeirra á húsnæðismarkaði á undanförnum árum. Komum betur að því síðar.

Þessi þróun gerðist ekki í tómarúmi. Hún var afleiðing pólitískra ákvarðana. Aðgerðir sem stjórnvöld undir stjórn ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gripu til vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins spiluðu stærsta rullu í þróuninni. Peningar voru gerðir ódýrari og tækifæri þeirra sem áttu fjármagn til að ávaxta, til dæmis í hlutabréfum og fasteignum, til að hagnast gríðarlega urðu fjölmörg. Á sama tíma jukust skattastyrkir til best settu hópa samfélagsins.

Aðstæður voru skapaðar til að pumpa verulega upp eignaverð.

Meira af nýjum auð fór til ríkustu tíundarinnar

Árlega er hægt að sjá hvernig þróun auðs í eigu einstaklinga á Íslandi er í tölum sem Hagstofa Íslands birtir um eignir og skuldir landsmanna. Uppfærðar slíkar tölur voru birtar í vikunni. Af þeim 593 nýjum milljörðum króna sem urðu til í fyrra fóru nefnilega 338 til þeirra tíu prósent landsmanna sem voru með mestu tekjurnar. Önnur leið til að segja þetta er að 57 prósent af öllum nýjum auð fór til þeirra 22.908 fjölskyldna sem þénuðu mest á því herrans ári 2024.

Þessi þróun er vel umfram meðaltal síðustu ára. Ríkasta tíundin tók til sín hærra hlutfall af nýjum auð í fyrra en hún hefur gert lengi. Sennilega er þetta hæsta hlutfall sem tíu prósent tekjuhæstu höfðu eignast síðan á árinu 2007, þegar bankagóðæri hömlulausrar frjálshyggju var á hápunkti sínum. Það sprakk svo með látum ári síðar með afleiðingum sem flest venjulegt vinnandi fólk þurfti að mestu að axla í gegnum verðbólgu, gjaldmiðilshrun, stórauknar ríkisskuldir, atvinnuleysi, lækkandi eignaverð og kostnað vegna fjármagnshafta.

Ríkustu tíu prósent landsmanna áttu alls 4.791 milljarða króna um síðustu áramót í hreinni eign, eða tæplega 51 prósent af öllum auð á Íslandi. Tíu prósent eiga meira en helming alls. Í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem tók við völdum síðla árs 2017 og sat þar til seint á síðasta ári, jókst auður þessa hóps um 2.290 milljarða króna, eða um 48 prósent. Hann næstum tvöfaldaðist.

Á sama tíma, sjö árum, óx eigið fé þess helmings landsmanna sem átti minnst, alls 114.540 fjölskyldna, um 143 milljarða króna. Sú upphæð er 42 prósent af auðsaukningu efstu tíundarinnar á síðasta ári einu saman.

Það átti sér stað skýr gliðnun milli þeirra sem eiga mest og hinna sem eru verr staddir í íslensku samfélagi.

Þeir sem eiga mest eiga sennilega mun meira

Í tölum Hagstofu Íslands um eigið fé landsmanna er ekki tekið tillit til eigna þeirra í lífeyrissjóðum landsins, sem sameiginlega halda á 8.378 milljörðum króna af eignum landsmanna, og eiga stóran hluta af öllum verðbréfum sem gefin eru út hérlendis.

Þá er virði hlutabréfa í innlendum og erlendum hlutafélögum líka reiknað á nafnvirði, ekki markaðsvirði. Það þýðir til dæmis að ef einstaklingur keypti hlut í skráðu félagi sem hefur tífaldast í verði fyrir einhverjum árum á 100 milljónir króna þá er það virðið sem reiknað er inn í tölur Hagstofunnar, ekki einn milljarður króna, sem er verðið sem viðkomandi myndi fá ef hann seldi hlutabréfin.

Verð á húsnæði og öðrum fasteignum er líka reiknað miðað við fasteignamat, en markaðsvirði hefur oft tilhneigingu til að vera nokkuð yfir því mati.

Þetta saman skekkir eðlilega mjög allar uppgefnar tölur um eigið fé, enda verðbréf og fasteignir að meginuppistöðu í eigu þess hluta þjóðarinnar sem á mestar eignir. Raunvirði eigna þess hóps er því sennilega mun meira en tölur Hagstofunnar gefa til kynna.

Íbúðir sem fjárfestingaeignir

Byrjum á verðbréfunum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var virði verðbréfa í eigu einstaklinga alls 779 milljarðar króna í lok síðasta árs. Þar af áttu þau tíu prósent landsmanna sem voru með hæstu tekjurnar verðbréf að andvirði 657 milljarða króna, eða 84 prósent af heildarvirði allra verðbréfa sem heimili landsins eiga.

Auður flestra annarra landsmanna er að mestu bundinn í steypu, húsnæðinu sem viðkomandi fjölskyldur búa í. Næstum átta af hverjum tíu hreinum krónum sem landsmenn eiga eru eign í fasteign. Flestir eiga einungis íbúðarhúsnæðið sem þeir búa í en þeim fer fjölgandi sem eiga fjölda fasteigna og líta á þær sem fjárfestingaeignir, ekki heimili. Í höfuðborginni hefur til að mynda hlutfall þeirra sem eiga bara eina íbúð hefur farið úr 74 prósentum í 61 prósent á 20 árum. Tæplega 27 þúsund íbúðir á landinu öllu eru í eigu einstaklinga sem eiga tvær til níu íbúðir og ítrekað birtast fréttir í fjölmiðlum um fólk sem er að kaupa mikið magn slíkra

Fjöldi þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð, þá sem þeir búa í, hefur stóraukist á síðustu árum. Ástæðan er að gríðarleg hækkun á húsnæðisverði hefur gert þær að eftirsóknarverðri fjárfestingavöru. Mynd: HMS

Áfram sem áður er staðan sú að tekjuhæsta tíundin á þorra þess auðs sem bundinn er í steypu á Íslandi, eða alls 3.383 af þeim 7.395 milljörðum króna sem skattframtöl gefa til kynna að hægt væri að losa um ef allt yrði selt og allar skuldir gerðar upp. Tíu prósent á því tæplega helming.

Hópurinn sem fær arð af hlutabréfum

Þau tíu prósent landsmanna sem eru með hæstu tekjurnar eru líka sá hópur sem þénar mestar fjármagnstekjur, sem þarf að greiða af ávöxtun eigna. Almennt er sá hópur að greiða yfir 80 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti.

Í fyrra voru fjármagnstekjur um 344 milljarðar króna, 60 milljörðum krónum meiri en árið 2023 sem er rúmlega 21 prósenta aukning milli ára. Um er að ræða, að uppistöðu, arð, vexti, leigu og söluhagnað verðbréfa. Miðað við gang mála á síðustu árum má ætla að ríkasta tíundin hafi tekið til sín á bilinu 275 til 285 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2024.

Stærsti einstaki liður fjármagnstekna árið 2024 var arður hlutabréfa, sem skilaði 127 milljörðum króna, eða 37 prósentum allra fjármagnstekna. Sá liður jókst um fjórðung milli ára.

Þeir sem afla fjármagnstekna borga fjármagnstekjuskatt. Sá skattur er 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af til dæmis launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,49 til 46,29 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru.

Líkt og var rakið í síðustu viku á þessum vettvangi þá eru þeir hópar sem þéna helst fjármagnstekjur að fá marga milljarða króna í skattafslátt á ári í gegnum ýmiss konar ívilnanir sem komið var á í tíð fyrri ríkisstjórna. Nú á að hætta þeim styrkjum. Hægt er að lesa um það hér að neðan:

Þeir sem vextirnir bíta síður á

Allt ofangreint hefur aukið þenslu á Íslandi. Þensla kallar á aðhald í hagstjórn. Ein stærstu hagstjórnarmistök síðari ára voru gerð hjá síðustu ríkisstjórn þegar hún dró allt of lítið og of seint út úr alls kyns efnahagsörvunaraðgerðum sem ráðist var í sem viðbragð við faraldri.

Seðlabanki Íslands hefur beitt þeim tólum sem hann á í verkfærakistu sinni til að reyna að ná tökum á verðbólgu svo hægt sé að lækka vexti. Það bitnar harðast á þeim sem eiga lítið eða ekkert en gagnast þeim sem eiga eignir mjög. Háir vextir þýða til að mynda meiri vaxtagreiðslur af innlánum og stórkostleg hækkun húsnæðisverðs langt umfram launa- og verðlagshækkanir skila þeim sem eiga fasteignir meira veðrými sem nýst getur til að gera ýmislegt annað. Þeir sem eiga geta líka hjálpað börnunum sínum að komast inn í fullorðinslífið með þaki yfir höfuðið með fyrirframgreiddum arfi eða öðrum millifærsluleiðum. Þeir sem eiga lítið eða ekkert geta lítið eða ekkert hjálpað sínum börnum. Vegna þessa ráðast lífskjör fólks á Íslandi í dag að miklu leyti á stöðu þess á húsnæðismarkaði.

Vaxtahækkunartólið bítur líka síður þegar hægt er að skipta úr óverðtryggðu láni yfir í verðtryggt og halda þannig afborgunum á svipuðum slóðum þegar vaxtahækkunum er beitt til að reyna að draga úr neyslu fólks. Tölurnar sýna það svart á hvítu hversu verseraðir Íslendingar eru orðnir í þeim leik. Fyrir um tveimur árum voru 56 prósent allra veittra húsnæðislána óverðtryggð. Í dag er hlutfall þeirra komið niður í 37 prósent.

Margir eiga nóg en hluti nær ekki endum saman

Þrátt fyrir að vextir hafi verið háir árum saman, og vaxtalækkunarferlið hafi staldrað við um stund við síðustu vaxtaákvörðun, þá er neysla íslenskra heimila sem eiga afgang að aukast. Sjö af hverjum tíu geta enda safnað sparifé í hverjum mánuði á meðan að þeir sem eiga lítið eða ekkert eiga ekkert eftir um mánaðarmót eða þurfa jafnvel að slá lán til að láta enda ná saman. Misskiptingin eykst og spennan í samfélaginu með.

Í nýrri Hagsjá Landsbankans birtist þessi mynd skýrt. Greiðslukortavelta heimila heldur áfram að aukast, Íslendingar eru búnir að fara í rúmlega 20 prósentum fleiri utanlandsferðir það sem af er ári og nýskráðir bílar eru 28 prósentum fleiri á fyrstu átta mánuðum ársins 2025 en á sama tímabili í fyrra.

Önnur birting er að hagur eldri borgara hérlendis hefur stórbatnað og sparnaður þeirra aukist hratt síðustu ár. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er til að mynda birt tafla sem sýnir að á árunum 2021 til 2024 jókst sparnaður 80 til 99 ára um 2,3 milljónir króna að meðaltali á meðan hann jókst um 300 þúsund krónur að meðaltali hjá þeim sem eru undir fimmtugu. Elstu aldurshóparnir eru auðvitað líklegir til að hafa greitt niður húsnæðislán sín og geta því lagt fyrir en í svimandi háu vaxtaumhverfi þá fá þeir líka ríflega ávöxtun á innlánin sín.

Hér sést hvernig sparnaður aldurshópa hefur aukist á síðustu árum, þegar vaxtabyrði hefur sligað þá sem skulda en stóraukið auð þeirra sem eiga innistæður í banka. Mynd: Fjárlagafrumvarp 2026

Síðasta stjórn hjálpaði sumum á kostnað hinna

Þessi staða öll er tekin saman í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands. Þar segir að heimili hér á landi búi „yfir mikilli seiglu og hafa tiltölulega auðveldlega staðið af sér þráláta verðbólgu og háa raunvexti síðustu misseri […] Vaxtabyrði heimila í hlutfalli við ráðstöfunartekjur er svipuð og á árunum fyrir faraldurinn. Hrein eign heimila hefur aukist umfram ráðstöfunartekjur, sem þó hafa vaxið mikið.“

Og það er gott að Íslendingar eigi meiri pening, afli meiri tekna og eignist fleiri eignir. Það er göfugt pólitískt markmið að allir hópar samfélagsins hafi það betra. Þannig er það þó ekki.

Síðustu ár hafa stjórnvöld gripið til alls kyns aðgerða sem hafa fóðrað betur setta hópa samfélagsins, en gert stöðu hinna verri. Þar má nefna húsnæðisstuðning við ríkustu hópa landsins, ófjármagnaðar skattalækkanir og skattastyrki sem beinast fyrst og síðast að sömu hópum, þensluhvetjandi aðgerða í efnahagsmálum sem hafa hleypt upp verðbólgu og vöxtum og eftirspurnarhvetjandi aðgerða á húsnæðismarkaði sem hafa hækkað húsnæðisverð langt umfram launa- og verðlagsþróun.

Samfélögum jöfnunar vegnar best

Við þessu öllu saman þarf að bregðast. Það er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að gera. Hún er þegar farin að draga úr skattastyrkjunum, boðar að húsnæðisstuðningur hins opinbera fari héðan af til þeirra sem þurfa á honum að halda, er með í pípunum margháttaðar aðgerðir á húsnæðismarkaði sem eiga það sameiginlegt að þær miða að því að íbúðir verði ekki lengur fjárfestingaeignir fyrir best settu hópa samfélagsins til að hagnast á heldur fyrst og síðast heimili fólks.

Þetta eru ekki alltaf vinsælar aðgerðir. Þeir sem hagnast á þeim vilja, eðlilega, ekki missa þann spón úr aski sínum. En þetta eru réttar aðgerðir.

Það á ekki að beita ríkissjóði til að stuðla að lífskjaragliðnum. Það eykur spennu í samfélaginu sem leiðir af aukinni sundrungu. Það sjáum við í ýmsum löndum í kringum okkur, til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þar dreymir fólki um samfélag jöfnuðar og þau lífsgæði sem því fylgir.

Samfélögum sem standa saman um að bæta ekki bara lífskjör og fjölga tækifærum sumra heldur allra vegnar best. Þar líður flestum vel.

Ísland er í grunninn slíkt samfélag, þótt stundum hafi verið sveigt í vafasamar einstaklingshyggjuáttir, og þangað eigum við að stefna á ný sem fyrst.

Reply

or to participate.