- Kjarnyrt
- Posts
- Flokkarnir sem töpuðu borguðu þrisvar sinnum meira fyrir hvert atkvæði en sigurvegararnir
Flokkarnir sem töpuðu borguðu þrisvar sinnum meira fyrir hvert atkvæði en sigurvegararnir
Það er mjög mismunandi hvað stjórnmálaflokkar þurfa að eyða af peningum til að ná hylli íslenskra kjósenda og í síðustu þingkosningum var engin fylgni milli þess sem eytt var og árangurs. Tveir aldnir valdaflokkar eyddu til að mynda samtals um 330 milljónum króna í að fá verstu kosninganiðurstöðu sína í sögunni upp úr kjörkössunum. Fjarhægriflokkur eyddi 140 milljónum króna og situr uppi með verulega neikvætt eigið fé fyrir vikið einungis til að enda enn eitt kjörtímabilið í stjórnarandstöðu. Á meðan voru það flokkarnir sem fá minnst af peningum úr atvinnulífinu og greiddu langminnst fyrir hvert greitt atkvæði sem stóðu uppi sem sigurvegarar og mynduðu ríkisstjórn.
Í síðustu Alþingiskosningum urðu hrein stjórnarskipti í landinu þar sem enginn flokkur úr fráfarandi ríkisstjórn hélt áfram í stjórn, sem er afar óvenjulegt í Íslandssögunni. Slík urðu árið 2013 en höfðu þar áður ekki átt sér stað síðan 1980. Þeir flokkar sem mynda ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur – Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins – bættu allir við sig verulegu fylgi og alls 19 þingmönnum milli kosninga og samanlagt fylgi þeirra jókst um 23,4 prósentustig. Meirihluti stjórnarflokkanna er mjög öruggur enda stjórnarþingmenn 36 talsins á meðan þingmenn minnihlutans eru 27.
Mest bætti Samfylkingin við sig eða um ellefu prósentustigum af fylgi og níu þingmönnum. Hún varð stærsti flokkur landsins eftir kosningarnar. Það er því ekki ofsögum sagt að hún hafi verið helsti sigurvegari síðustu þingkosninga.
Þeir sem töpuðu þeim kosningum voru fráfarandi stjórnarflokkar. Vinstri græn þurrkuðust út, fengu undir fimm þúsund atkvæði og 2,3 prósent þeirra sem greidd voru. Framsóknarflokkurinn tapaði tæpum tíu prósentustigum, átta þingmönnum og eru nú einungis með fimm. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína verstu kosninganiðurstöðu í sögu sinni og fór í fyrsta sinn undir 20 prósenta fylgi. Alls tapaði hann fimm prósentustigum af fylgi og tveimur þingmönnum. Eini flokkurinn í stjórnarandstöðu sem bætti við sig fylgi þegar síðast var kosið var Miðflokkurinn.
Eyddu hálfum milljarði í að tapa
Undanfarið hafa ársreikningar stjórnmálaflokka verið að birtast á heimasíðu Ríkisendurskoðunar. Þar er hægt að sjá hverju þeir kostuðu til í kosningunum til að reyna að ná hylli kjósenda. Niðurstaðan er afar athyglisverð og sýnir ekki mikla fylgni milli þess sem flokkar eyða og þess árangurs sem þeir ná.
Mest eyddi Sjálfstæðisflokkurinn, eða 174,3 milljónum króna. Þar á eftir kom Framsóknarflokkurinn með 155,4 milljónir króna og Miðflokkurinn eyddi 140,7 milljónum króna. Þeir þrír flokkar sem sitja saman í stjórnarandstöðu, og fengu samtals 39,3 prósent atkvæða og 27 af 63 þingmönnum, eyddu því 470,4 milljónum króna. Ef við er bætt þeim 34,9 milljónum króna sem Vinstri græn eyddu í að komast ekki á þing þá liggur fyrir að fyrrverandi stjórnarflokkar og Miðflokkur eyddu hálfum milljarði króna til að komast ekki til valda.
Samfylkingin eyddi 92,2 milljónum króna til að tvöfalda fylgi sitt, Flokkur fólksins eyddi 70,3 milljónum króna til að komast í fyrsta sinn í ríkisstjórn og Viðreisn eyddi 67,1 milljón króna til að ná mesta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni fengið í þingkosningum. Sameiginlegir sigurvegarar kosninganna, sem mynduðu svo ríkisstjórn, eyddu því 229,6 milljónum króna í sínar kosningar, eða vel undir helmingi þess sem hin hliðin eyddi.
Ársreikningar Sósíalistaflokks Íslands og Pírata, sem náðu ekki inn á þing, hafa ekki verið birtir á vef Ríkisendurskoðunar.
Um tvö þúsund og yfir sex þúsund
Til að sjá hvernig fjármunir sem fóru í kosningarnar nýttust er ágætt að skoða hvað hver flokkur greiddi á endanum að meðaltali fyrir hvert greitt atkvæði. Þá skera stjórnarflokkarnir sig verulega úr þegar skoðað er „bang for buck“, eða hvernig peningarnir nýttust á skýrri íslensku. Hver þeirra greiddi í nálægð við tvö þúsund krónur fyrir hvert greitt atkvæði og meðaltalskostnaður við hvert atkvæði sem stjórnarflokkarnir þrír fengu var 2.163 krónur. Á sama tíma greiddi stjórnarandstaðan 6.363 krónur á hvert atkvæði sem flokkarnir innan hennar fengu og ef Vinstri grænum er bætt við þann hóp fer meðaltalskostnaðurinn í 6.525 krónur.

Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins mynduðu ríkisstjórn í desember 2024, eftir að hafa unnið kosningasigra. Mynd: Úr safni
Það liggur því fyrir að stjórnarandstaðan, með eða án Vinstri grænna, greiddi um og yfir þrefalt meira fyrir hvert greitt atkvæði en Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi rúmlega tvöfalt meira fyrir hvert atkvæði en stjórnarflokkarnir að meðaltali og Framsókn vel rúmlega fjórum sinnum meira fyrir að fá minnsta fylgi sitt í Íslandssögunni.
Hér að neðan má sjá kostnað við hvert greitt atkvæði:
Viðreisn: 1.997 krónur
Samfylkingin: 2.092 krónur
Flokkur fólksins: 2.401 krónur
Sjálfstæðisflokkurinn: 4.237 krónur
Miðflokkurinn: 5.476 krónur
Vinstri græn: 7.008 krónur
Framsóknarflokkur: 9.376 krónur.
Atvinnulífið styrkti andstöðuna fjórfalt meira
Í ársreikningum stjórnmálaflokka kemur líka fram hvaðan fjármagnið til að reka þá, og á síðasta ári kosningabaráttu þeirra, kemur. Þegar horft er á framlög fyrirtækja er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir aðra flokka í að þiggja styrki þaðan. Alls fékk flokkurinn 65,8 milljónir króna úr atvinnulífinu á síðasta kosningaári.
Til að setja þá tölu í samhengi þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 8,3 milljónum króna meira frá fyrirtækjum í landinu en hinir sex flokkarnir sem búið er að birta reikninga fyrir samanlagt. Framsóknarflokkurinn er sá sem komst næst Sjálfstæðisflokknum í styrkjum frá atvinnulífinu með 19,3 milljónir króna. Af þeim flokkum sem þáðu styrki frá lögaðilum á árinu 2024 og náðu inn á þing fékk Samfylkingin minnst, eða 8,9 milljónir króna, og var eini flokkanna sem það gerðu sem fékk undir tíu milljónum króna úr þeim ranni. Flokkur fólksins þáði hins vegar enga styrki frá fyrirtækjum.
Önnur leið til að líta á þetta er að horfa á hvað stjórnarflokkarnir þrír fengu samtals frá fyrirtækjum og hvað stjórnarandstæðingar fengu. Samtals námu framlög fyrirtækja til Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins á síðasta kosningaári 24,1 milljón króna. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Miðflokkur fengu hins vegar samtals 97,5 milljónir króna. Á mannamáli þýðir það að atvinnulífið setti fjórum sinnum meira fjármagn í flokkana sem töpuðu kosningunum 2024 en þeir settu í að styrkja þá þrjá sem sigruðu þær.
Að venju kom stór hluti styrkja til Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Þeim sömu og umræddir flokkar stóðu fast með í málþófi sínu gegn sanngjörnum og réttlátum veiðigjöldum í fyrrasumar. Málþófi sem gekk út á að hafna gangverki lýðræðis.
Styrkir til Sjálfstæðisflokks tvöfölduðust
Það er líka athyglisvert að bera framlög í aðdraganda síðustu kosninga saman við það sem var árið 2021, þegar kosið var síðast á undan. Þá kemur ýmislegt áhugavert í ljós.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33,6 milljónum krónum meira í slík framlög árið 2024 en þremur árum áður, sem þýðir að í krónum talið rúmlega tvöfaldaðist upphæðin sem skilaði sér úr atvinnulífinu og inn á bankabók hans milli kosningaára. Miðflokkurinn rúmlega tvöfaldaði líka upphæðina sem hann fékk upp í 12,4 milljónir króna. Samfylkingin fór úr 3,2 milljónum króna í tæplega níu milljónir króna og var áfram sem áður langt frá Sjálfstæðisflokknum í fyrirtækjastyrkjum og vel undir Framsókn, Viðreisn og Miðflokki.

Guðrún Hafsteinsdóttir tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum snemma á síðasta ári, eftir kosningar. Síðan þá hefur fylgi flokksins haldið áfram að skreppa saman í könnunum. Mynd: XD.is
Styrkir til Framsóknarflokksins voru nánast sama krónutalan árið 2024 og þeir voru í kosningunum á undan en athygli vekur að atvinnulífið hætti nær alfarið að styðja við Vinstri græn, sem höfðu mælst í miklum vandræðum í könnunum mánuðum saman fyrir kosningar í kjölfar áralangs ríkisstjórnarsamstarfs með Sjálfstæðisflokki og Framsókn.
Árið 2021 fengu Vinstri græn, eftir að hafa leitt kyrrstöðustjórnina í heilt kjörtímabil, rúmlega átta milljónir króna frá fyrirtækjum. Þegar síðustu kosningar fóru fram voru þau framlög komin niður í tæplega 1,8 milljónir króna. Það þýðir að framlög atvinnulífs til flokksins sem leiddi lengst af síðustu ríkisstjórn þau tæpu tvö kjörtímabil sem hún sat voru fimmtungur þess sem þau voru 2021 þremur árum síðar.
Framlög hækkuðu mikið
Miklar breytingar hafa orðið á fjárhagsstöðu flokka á undanförnum árum. Hana má að uppistöðu rekja til ákvörðunar sem tekin var milli jóla og nýárs 2017 og hafði áhrif á afkomu allra flokka, þótt einstaka flokkar hafi líka getað rétt við sig langt umfram aðra með öðrum hætti. Að því verður vikið hér aðeins neðar.
En framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru sem sagt hækkuð verulega eftir kosningarnar 2017, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar var mynduð. Þá hafði verið kosið tvisvar á tveimur árum og fjárhagsstaða flestra stjórnmálaflokka bágborin fyrir vikið, enda kosningar helsti útgjaldaliður þeirra.
Á milli jóla og nýárs það ár var tillaga sex flokka sem áttu sæti á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka sem náðu yfir 2,5 prósent atkvæða í kosningunum á undan á árinu 2018 um 127 prósent samþykkt í fjárlögum. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna.
Framlögin hækkuðu síðan jafnt og þétt og voru þegar mest lét 728,2 milljónir króna á ári. Á síðustu árum hafa þau þó lækkað, bæði í krónum talið og að raungildi. Árið 2024 voru þau 692,2 milljónir króna, í fyrra 622,2 milljónir króna og verða óbreytt í ár.
Framlögin greiðast til flokka á grundvelli niðurstöðu kosninga. Til viðbótar við greiðslur úr ríkissjóði fá stjórnmálaflokkar líka greiðslur fyrir að ná inn fólki á sveitarstjórnarstiginu, þótt þær greiðslur séu mun umfangsminni.
Á árinu 2024 fékk Sjálfstæðisflokkurinn langmest fé allra flokka úr opinberum sjóðum til að standa straum af kosningabaráttu sinni og öðrum rekstri. Samtals námu þær greiðslur 201,4 milljónum króna. Það er vel rúmlega helmingi meira en Samfylkingin fékk af skattfé til að reka sig. Framsóknarflokkurinn fékk svo 50 prósent meira en Samfylkingin, eða um 145,5 milljónir króna, frá hinu opinbera og Vinstri græn fengu 112,1 milljón króna.
Þéttu byggð og eignuðust miklu meiri pening
Það er ekki hægt að kveðja umfjöllun um fjármál stjórnmálaflokka án þess að dvelja við fasteignaþróunarbrask eins þeirra og fasteignaviðskipti annars, sem hafa umbreytt fjárhag beggja.
Einn flokkur á miklu meiri eignir en hinir, og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Alls voru eignir hans metnar á 1.775 milljónir króna í lok árs 2024. Það er vel rúmlega helmingi hærra verðmiði en er samanlagt á eignum allra annarra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi í dag.
Þar skiptir mestu að á árinu 2020 var samþykkt nýtt deiliskipulag Háaleitisbrautar 1, lóðinni sem Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, standa á. Samkvæmt því var heimilt að bæta tveimur nýjum byggingarreitum við lóðina. Á þeim er meðal annars gert ráð fyrir að byggja 47 íbúða fjölbýlishús, skrifstofuhúsnæði og bílakjallara. Hluti byggingarréttar Valhallarreitsins, sem snýr að horni Skipholts og Bolholts, var seldur á árinu 2021. Ári síðar var byggingarreiturinn næst Kringlumýrarbraut seldur. Samtals skilaði sala þessara reita stærsta stjórnmálaflokki landsins 564 milljónum króna í tekjur á tveimur árum. Ofan á þetta er fasteignamat fasteigna og lóða í eigu flokksins rúmlega milljarður króna.

Valhöll er til sölu og við hlið hennar má sjá fjölbýlishús sem byggð voru á bílastæðum, þétt við höfuðstöðvar flokksins sem er á móti þéttingu byggðar og vill fjölga bílastæðum. Mynd: RÚV
Í ofanálag auglýsti Sjálfstæðisflokkurinn Valhöll til sölu í nóvember í fyrra, án þess að setja verðmiða á höfuðstöðvarnar. Samkvæmt ársreikningi eru fasteignir flokksins metnar á næstum 1,3 milljarða króna og fyrir liggur að Valhöll myndar uppistöðuna af þeirri upphæð.
Svo er það nánast pólitískt ljóðrænt að þessi fasteignaþróun, lóða- og höfuðstöðvasala, felur í sér verulega fækkun bílastæða og umtalsverða þéttingu byggðar. Fyrirbæri sem meginþorri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og fjölmiðlar flokksins hafa talað um sem nánast landráð á síðustu árum.
Fyrir vikið var eigið fé Sjálfstæðisflokksins 1.352 milljónir króna í lok árs 2024. Það þýðir að hann á miklu meiri pening en allir hinir flokkarnir sem Sjálfstæðisflokkurinn keppir við um hylli kjósenda.
Framsókn skilaði hagnaði á kosningaári
Til samanburðar þá var eigið fé allra annarra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á þingi samkvæmt síðustu birtu ársreikningum þeirra 221,7 milljónir króna. Þar af átti Framsókn Rúman helming, eða 126,2 milljónir króna. Eigið fé Sjálfstæðisflokksins var því rúmlega sex sinnum meira en hinna fimm flokkanna sem sitja á þingi til samans.
Verðmætasta eign Framsóknarflokksins síðustu ár hefur verið Hverfisgata 33, gömlu höfuðstöðvar flokksins, sem hafa á síðustu árum verið vistuð inni í dótturfélaginu Skúlagarði ehf.
Sumarið 2024 keypti félag Avrahams Feldmans, rabbína gyðinga á Íslandi, Framsóknarhúsið á 325 milljónir króna. Þar af fékk dótturfélag Framsóknarflokksins, Skúlagarður, 167 milljónir króna í sinn hlut sem var langt umfram bókfært verð og vel yfir veðskuldum flokksins.
Þetta umbreytti fjárhag flokksins. Eignir hans fóru úr því að vera 197 í 325 milljónir króna. Eigið féð fór úr 50 í 126 milljónir króna. Og salan gerði það að verkum að Framsókn var eini flokkurinn sem náði inn á þing sem skilaði hagnaði á kosningaári.
Reyna að sníða leikreglurnar að sinni stöðu
Allt að öllu þá er ágætt að hafa allt ofangreint í huga þegar Sjálfstæðisflokkurinn (sá flokkur sem hefur fengið langhæstu upphæðina í ríkisstyrki), ríkisstyrkta hægri hugveitan Viðskiptaráð og fjölmiðlar sem tengjast þessu hagsmunabandalagasólkerfi leggja í enn einn leiðangurinn til að reyna að afnema opinbera styrki til stjórnmálasamtaka.
Það gera þau reglulega. Slíkt var hluti af kosningaáherslum Sjálfstæðisflokks í aðdraganda síðustu kosninga. Hugveitan skrifaði svo greinar til að fylgja þeim áherslum eftir. Síðast birtist þetta í minnihlutaáliti Sjálfstæðismanna á fjárlögum yfirstandandi árs, þar sem lagt var til verulegur niðurskurður á umræddum styrkjum.
Ekkert af þessu er gert af lýðræðisást heldur til að bregðast við því að Sjálfstæðisflokkurinn er nú langt frá því að vera stærsti flokkurinn í landinu og reyna að veita sérhagsmunahægrinu samkeppnisforskot á baki fasteignabrasks sem gerði það sex sinnum ríkara en aðrir flokkar á þingi til samans. Það er gert vegna þess að flokkurinn getur ekki keppt á jafningjagrundvelli og vill því sníða leikreglurnar að sinna stöðu.
Niðurstöður síðustu kosninga, og þróun kannana síðan þá, sýna hins vegar svart á hvítu að það skiptir ekki alltaf máli hver eyðir mestu ef almenningur hefur engan áhuga á því sem viðkomandi er að selja.
Reply