- Kjarnyrt
- Archive
- Page -21
Archive
Löt kyrrstöðustjórnmál koma ekki lengur í veg fyrir stórar ákvarðanir
Það kostar að viðhalda vegakerfi og ráðast í samgönguúrbætur samfélaginu öllu til heilla. Tekjustofnarnir sem áttu að standa undir þessu voru látnir drabbast niður í tíð síðustu ríkisstjórnar. Fyrir vikið er ástand vega óboðlegt og lítið sem ekkert hefur verið gert í nýframkvæmdum. Til að snúa þessari þróun við þarf að láta þá sem nota vegina borga rétt verð fyrir. Það verður gert með því að færa innheimtu notendagjalda á eigendur ökutækja til nútímans, í stað þess að rukka þau við bensíndælur. Þetta ætlaði síðasta ríkisstjórn að gera en gat ekki klárað og er nú á móti eigin máli þegar getumeira fólk er að sigla málinu heim.

Stjórnarandstaða sem virðist ekki vilja láta taka sig alvarlega
Álit flokkanna sem mynda minnihlutann á Alþingi á fjárlögum liggur nú fyrir. Hún er sambland af orðasalati sem gæti fyllt hálfa hefðbundna skáldsögu, öfugum dyggðarskreytingum og hreint ótrúlegum hugmyndum um að breyta Íslandi í tilraunaeldhús fyrir frjálshyggjubrjálæði. Ef þetta yrði innleitt myndi það grafa undan samfélagsgerðinni eins og við þekkjum hana og fara langleiðina með því að ganga frá velferðarkerfinu sem hún byggir á. Allt svo hægt yrði að lækka skatta á efnaðasta fólkið, draga úr eftirliti, einkavæða nær öll ríkisfyrirtæki og veikja mikilvægar lýðræðisstoðir. Sem betur fer er ríkisstjórn í landinu sem er með allt aðrar áherslur. Ríkisstjórn sem sýnir ábyrgð, vinnur fyrir alla og vill auka velferð með vexti.

Skrattinn málaður á vegginn án innistæðu í rammpólitískum tilgangi
Kvótinn sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki halda á, en er í eigu þjóðarinnar, er metinn á yfir 500 milljarða króna í bókum þeirra. Sú tala er þó sýnilega vanmetin og raunvirði kvótans, yrði hann seldur á markaðsvirði, vel rúmlega tvisvar sinnum sú tala. Það gríðarlega eigið fé sem bunkast hefur upp í geiranum á undanförnum árum setur hann í sérdeild í íslensku atvinnulífi. Þrátt fyrir endalausar tilraunir stjórnmálamanna, fjölmiðla og lobbýista stórútgerða til að mála upp svarta mynd af stöðu sjávarútvegs í rammpólitískum tilgangi er staðan frábær og mjög bjart fram undan. Verð halda áfram að hækka, loðnukvóti er á leiðinni, mikil fjárfesting síðustu ár mun skila stóraukinni hagkvæmni og tollastríð virðast ekki hafa nein teljandi áhrif á aðgengi.

Það sem gerist þegar skrúfað er frá peningakrönum
Afar mikilvægt er að fjölga stoðunum undir íslensku atvinnulífi. Skapa störfin sem þjóðin er að mennta sig til að sinna, tryggja að þau séu framleiðni aukandi, vel borguð og staðsett um allt land. Til þess að stuðla að þessu hafa stjórnvöld í gegnum tíðina stutt við fjölmargar atvinnugreinar með beinum greiðslum úr ríkissjóði. Sumar eru kallaðar styrkir, aðrar endurgreiðslur. Um er að ræða tugi milljarða króna á ári og því mikilvægt að þeim sé úthlutað af ábyrgð og fagmennsku. Síðasta ríkisstjórn gerði það ekki, heldur skrúfaði frá peningakrönum, sinnti litlu eftirliti og mældi ekki árangur. Styrkirnir lentu ekki allir þar sem þeir áttu að lenda. Nú hefur orðið breyting á því.

Flokkur pólitískra púðurskota lítur til fortíðar eftir nýrri framtíð
Helsti valdaflokkur Íslandssögunnar er í vanda. Fylgið er eitt það minnsta sem hann hefur nokkru sinni mælst með og annar flokkur, hægra megin við, er að sjúga til sín þjóðernislegt íhaldsfylgi mánuði til mánaðar. Einungis rétt tæplega þriðjungur flokksmanna segir nýjan flokksformann hafa staðið sig vel og sama hlutfall þeirra telur hana raunar hafa staðið sig illa. Til að bregðast við þessari krísu blés Sjálfstæðisflokkurinn til ásýndarfundar. Þar kom fram að fortíðin er nýja ásýndin hjá flokki sem vill helst bara standa kyrr.

Pólitískt yfirprjón vegna þess að planið er að virka
Íslenskt hagkerfi stendur styrkum fótum. Ábyrg efnahagsstjórn er að koma Íslandi aftur á rétta braut eftir piss í skóinn - vegferð síðustu ríkisstjórna. Verið er að endurheimta jafnvægið. Fram undan er stærsta framkvæmdartímabil sögunnar og verðmætasköpun sem byggir á aukinni framleiðni sem hefur það markmið að skapa ný og vel borgandi störf út um allt land. Við þær aðstæður leitar minnihlutinn á þingi í uppnefningasmiðju hlaðvarpa eftir pólitískri leiðsögn. Og staðfestir um leið eigin vangetu.

Að þora að breyta matarholum og braski sumra í tækifæri fyrir alla hina
Á Íslandi hefur það fengið að viðgangast allt of lengi að fjárfestar geti safnað upp íbúðum sem fjárfestingavörum og verslað svo með þær meira og minna skattfrjálst. Á Íslandi hafa braskarar getað haldið lóðum sem gætu hýst blómlega byggð óbyggðum árum saman til að reyna að knýja fram meira byggingamagn eða vegna þess að þeir eru að bíða eftir að fá hærra verð fyrir að gera ekkert. Á Íslandi hefur byggingaregluverk í allt of langan tíma verið seinvirkt og tyrfið. Á Íslandi hefur húsnæðisstuðningi síðustu ríkisstjórna fyrst og síðast verið beint gegn efnamestu landsmönnunum. Þessu á öllu að breyta núna. Og það er bara byrjunin.

Hvað hefðum við getað gert við peningana sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn færðu þeim efnuðustu?
Þær ríkisstjórnir sem sátu að völdum áratuginn áður en sú sem nú situr einblíndu mjög á ófjármagnaðar skattalækkanir fyrir tekjuhæstu landsmenn, eftirgjöf réttlátra gjalda á stóra atvinnuvegi, viðhald skattaglufna sem gagnast fjármagnseigendum, uppbyggingu stuðningskerfa fyrir þá sem þurftu ekki endilega á þeim að halda og beinar peningagjafir úr ríkissjóði til hópa sem hafa það betur en flestir aðrir. Á sama tíma jókst skattbyrði á venjulegt launafólk, mikilvæg tekjuöflunarkerfi voru látin drabbast niður, velferðarkerfi létu verulega á sjá og gríðarleg innviðaskuld safnaðist upp. Nú öskrar sama fólk og bar ábyrgð á þessum ríkisstjórnum á torgum um að afleiðingarnar af þessu vitaverða getuleysi sé allt þeim sem hafa setið að völdum í tíu mánuði, og eru að taka til eftir partíið þeirra, að kenna.

Úr frjálslyndi í fjarhægri
Fyrir áratug var unga hægrið á Íslandi afar frjálslynt. Það lagði áherslu á frelsi til athafna, aukin mannréttindi og stuðning við jaðarhópa, bætta stöðu neytenda og öflugt alþjóðasamstarf í áherslum sínum. Með þessum áherslum ætlaði unga fólkið í hægristjórnmálum að kippa flokknum sínum, Sjálfstæðisflokki, inn í nútímann. Þau töldu mikilvægt að festast ekki í fortíðinni, heldur þróast í takt við nýja tíma og takast á við áskoranir framtíðar í stað þess að óttast þær, í stað þess að standa vörð um úreltar hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Nú er unga hægrið búið að skipta sér niður á fleiri en einn flokk og er komið á bólakaf í allt það sem það ætlaði sér að forðast.

Hvað var verið að fela?
Á Íslandi eiga nokkrar fjölskyldur mörg hundruð milljarða króna auð sem þær hafa eignast með nýtingu á þjóðareign. Þann auð hafa þær nýtt til að kaupa sig inn í óskyldan rekstur í viðskiptalífinu. Fyrir liggja upplýsingar um sterka stöðu þeirra í smásölu, fjölmiðlum, fasteignaviðskiptum, heildsölu, fjármálakerfinu og jafnvel í sósugerð. Heildarmyndin um ítök stærstu eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna í íslensku samfélagi liggur þó ekki fyrir og fyrri tilraunir til að varpa ljósi á hana hafa mætt mótstöðu fyrri stjórnvalda. Nú á loksins að birta þessa mynd enda engin þörf á leynd ef enginn hefur neitt að fela.

Þeir sem nota kúbein til að sundra og hinir sem vilja frekar líma hluti saman
Hræðsla er megininntakið í þeirri pólitík sem gömlu valdaflokkarnir á Íslandi og afsprengi þeirra stunda. Þeir vilja að hópar innan samfélagsins séu hræddir við hvern annan og allir eiga að vera hræddir við allt sem kemur að utan. Þeir eru líka hræddir við að leyfa þjóðinni að taka eðlilegt samtal og framkvæma hagsmunamat á stórum spurningum sem snerta lífsgæði hennar beint, og skíthræddir við að leyfa henni að kjósa um slíkt. Hræddastir eru þó draugar fortíðar við fólk sem vill brjóta upp kerfi sem hafa það sem meginmarkmið að útdeila tækifærum, upplýsingum og peningum annarra til útvalinna.

Samfélag sem á tíu þúsund milljarða þarf að virka fyrir alla, ekki bara suma
Á síðasta ári urðu til næstum 600 nýir milljarðar króna í auð á Íslandi. Ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín stærra hlutfall þessa nýja auðs en þau hafa gert frá árinu 2007, þegar uppblásin bankabóla ýkti allt. Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum sem hafa falið í sér aukna skattstyrki til best settu hópa samfélagsins, húsnæðisstuðning sem aðallega hefur verið beint til þeirra tekjuhæstu og ívilnað fjármagnseigendum með ýmsum hætti hefur aukið á þessa lífskjaragliðnun. Nú er það tímabil búið. Hér eftir verður lögð áhersla á að bæta líf allra, ekki bara sumra.

