- Kjarnyrt
- Archive
- Page 4
Archive
Stjórnin sem hlustaði á þjóðina og þeir sem eru dauðhræddir við hana
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar sýnir að hún ætlar sér að að taka á þeim málum sem allar mælingar segja að skipta þjóðina mestu máli núna, og leiða í jörð mál sem hafa sundrað henni áratugum saman. Hann sýnir að stjórnin ætlar sér af auðmýkt að vinna fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara sumt. Konurnar eru mættar og þær ætla að uppfæra Ísland.

Sjálfstæðisflokkur á þrisvar sinnum meiri pening en allir hinir til samans
Fjármál Sjálfstæðisflokksins eru ekki ósvipuð því sem Valur býr við í íþróttaheiminum. Fasteignaþróun í kringum höfuðstöðvar flokksins hefur tryggt honum fjárhagslega yfirburði í íslenskri pólitík. Síðan að það varð veruleikinn hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist fyrir því að opinber framlög til annarra flokka verði skert umtalsvert. Framlög sem hafa skilað honum mestum ávinningi allra og flokkurinn samþykkti sjálfur að koma á þegar hann vantaði pening.

Það tók 526 daga að ákveða að þagnarskylda er mikilvægari en hagsmunir almennings
Sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka í lokuðu útboði til 207 fjárfesta vorið 2022 er einn svartasti bletturinn á ferli fráfarandi ríkisstjórnar. Fúskið í kringum hana markaði upphafið að endalokum stjórnarinnar. Þegar Íslandsbanki ákvað að játa margháttuð lögbrot við söluna gerði hann sátt um að greiða metsekt fyrir. Í sáttinni sem birt var opinberlega var búið að strika yfir upplýsingar. Það tók nefnd 526 daga að komast að þeirri niðurstöðu að almenningur, eigandi hlutarins sem var seldur, eigi engan rétt á þeim upplýsingum.

Eru bankarnir í alvöru undir lamandi „Íslandsálagi“?
Stóru íslensku bankarnir hafa búið til frasann „Íslandsálag“ um þær auknu álögur og kvaðir sem þeim er gert að greiða hérlendis en aðrir bankar í álfunni þurfa ekki að greiða. Þeir láta í það skína að lækkun eða afnám „álagsins“ myndi skila sér í betri kjörum til almennings. Ekkert í fyrri breytni bendir þó til þess. Síðast þegar skattar voru lækkaðir á íslenska banka þá stungu þeir ávinningnum í vasann.

Afleiðingar risastóru en ófjármögnuðu útgjaldapakkanna
Í ár hefur miklum opinberum fjármunum verið varið í að aðstoð við Grindvíkinga og til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Samtals hleypur kostnaðurinn á tugum milljarða króna. Fráfarandi ríkisstjórn aflaði hins vegar ekki tekna, né sýndi nægjanlegt aðhald í ríkisrekstri, til að standa undir þessum mikla kostnaði heldur bætti við sífellt hærri yfirdráttinn sem hún hefur rekið ríkissjóð á árum saman. Það verður næstu ríkisstjórnar að takast á við afleiðingarnar.

Árið 1994 ... en nú á landsvísu
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa stýrt Íslandi, annað hvort saman eða í sitthvoru lagi, meira og minna allan lýðveldistímann. Flokkarnir hafa búið til kerfi í kringum fyrirgreiðslupólitík og sérhagsmunagæslu. Kosningarnar um síðustu helgi skiluðu niðurstöðu þar sem kjósendur sögðust vilja nýtt upphaf. Þeir vilja hverfa frá valdakerfum helmingaskiptaflokkanna og fá stjórnsýslu sem er þjónustumiðuð með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Tækifærið sem nú er til staðar er svipað því sem var í Reykjavíkurborg fyrir 30 árum og varð til þess að Sjálfstæðisflokknum hefur, meira og minna, verið haldið frá stjórn hennar nær alla tíð síðan.

Hvílum þá sem telja suma jafnari en alla hina
Á meðan að vaxta- og skattbyrði hefur stóraukist á venjulegar vinnandi fjölskyldur á Íslandi á síðustu árum hefur hagur þeirra sem eiga mest í samfélaginu, og hagnast langt umfram aðra á kerfunum sem það byggir á, haldið áfram að blómstra. Auður og áhrif þeirra hafa haldið áfram að aukast ár frá ári. Kerfin byggja á þeirri hugmynd að sumt fólk, þiggjendurnir, búi yfir meiri verðleikum en annað. Stjórnmál þeirra sem byggðu kerfin snúast um að sannfæra þá sem þau gagnast lítið eða ekkert um hið gagnstæða. Þessu þarf að breyta. Og það þarf að breyta því núna.

Kosningar sem geta leitt af sér nýtt upphaf á Íslandi
Í fyrsta sinn í Íslandssögunni eru bæði ytri aðstæður og niðurstöður kosninga fyrir hendi sem gera það mögulegt að ráðast í alvöru, sanngjarna og réttláta uppfærslu á kerfunum í íslenskri stjórnsýslu. Að búa til ríkisstjórn, undir forystu öflugra kvenna, sem ætlar sér að vinna fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara sumt. Stjórn sem ætlar sér að ná alvöru efnahagslegum stöðugleika og byggja upp lífskjör og velferð á́ grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Hinn valkosturinn er enn ein valdsækin íhaldsstjórn sérhagsmuna og frændhygli.

Vond pólitísk menning er ekki föst og óhagganleg breyta
Enn og aftur er búið að opinbera spillingu í íslenskum stjórnmálum þar sem beita átti opinberu valdi og aðstöðu til persónulegs ávinnings. Enn og aftur eru sérhagsmunir teknir fram yfir almannahagsmuni. Enn og aftur hefur það engar afleiðingar. Þetta þarf ekki að vera svona. Þetta getur breyst. En það mun einungis gerast ef félagshyggjustjórn verður mynduð eftir komandi kosningar. Hinn valkosturinn er íhaldssöm hægri stjórn sem telur spillingu einfaldlega vera hluta af eðlilegri pólitískri menningu.

Flokkarnir sem vilja kaupa sig til valda og kúgun verðleikanna
Miðflokkurinn vill „gefa“ þjóðinni 100 milljarða króna sem hún á nú þegar og kynda með því verðbólgubálið en fá í staðinn ódýr atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta á breiðustu bökin um milljarða króna á ári, enda með þá yfirlýstu stefnu að vinna gegn jöfnuði og þar af leiðandi með ójöfnuði. Ef félagshyggjustjórn tekur við eftir helgi þá munu þeir sem eiga mest hins vegar greiða meira í samneysluna svo hægt sé að endurreisa velferðina í landinu. Forðist sjónhverfingar, stuðlið að nýju upphafi.

Að lifa í landi þar sem lækkun vaxta þýðir hækkun vaxta
Í lok árs 2020 voru 57 prósent allra íbúðalána á Íslandi verðtryggð, vegna þess að það voru hagstæðustu lánin sem heimili landsins töldu sig geta fengið. Tæpum tveimur árum síðar hafði orðið viðsnúningur og 57 prósent allra íbúðalána voru þá óverðtryggð. Í sumar voru verðtryggðu lánin komin aftur upp í 58 prósent allra lána vegna svimandi hárrar verðbólgu og vaxta sem eru á meðal þeirra hæstu í Evrópu. Þegar stýrivextir fóru loks að lækka, hækkuðu bankarnir verðtryggðu vextina á fólkið sem var að flýja háu óverðtryggðu vextina.

Þetta þarf ekki að vera svona – Saga af fúski og sérhagsmunagæslu
Meirihluti atvinnuveganefndar laumaði inn breytingum á frumvarpi á búvörulögum í vor sem gerðu risa í landbúnaði að fríríki. Eftir samþykkt laganna var bann við samráði þeirra á milli afnumið. Formaður nefndarinnar átti fjárhagslega hagsmuni undir afgreiðslunni. Nú hefur dómstóll staðfest að hún var stjórnarskrárbrot.
