- Kjarnyrt
- Archive
- Page -4
Archive
Verðbólgnar yfirlýsingar, kærkomin loðna og loksins er helvítis húsnæðisverðið að lækka
Húsnæðis- og leiguverð hefur farið lækkandi á Íslandi síðustu mánuði. Það hefur dregið úr verðbólguþrýstingi en slíkt verð var leiðandi í vexti verðbólgunnar þegar hún rataði upp í tveggja stafa tölu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Síðustu skrefin í að ná verðbólgunni niður í markmið eru oft flókin og hún hefur flakkað milli þess að vera undir fjórum prósentum í að skríða yfir fimm prósent á síðustu þremur mánuðum. Heilt yfir erum við þó á réttri leið og fyrirsjáanlegt er að verðbólga hjaðni á næstu mánuðum sem mun leiða til enn frekari lækkunar vaxta. Efnahagslífið er svo að sýna gríðarlegan viðnámsþrótt og markaðsvirði stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins hefur aukist um yfir 160 milljarða króna á hálfu ári. Heilt yfir er bjart fram undan fyrir íslenska þjóð.

Hvernig klofnar þjóð með því að fá að ráða eigin örlögum?
Heimurinn er að breytast hratt. Net alþjóðastofnana og leikreglna sem byggðu á samningum milli líkt þenkjandi þjóða eftir seinni heimsstyrjöld tryggði mesta velmegunartímabil mannkynssögunnar fullt af friði og framförum. Nú ríkir óvissa um þetta vegna þess að Bandaríkin, voldugasta ríki heims, hafa ákveðið það einhliða. Það kallar á breytt hagsmunamat smáríkja eins og Íslands sem hefur á baki þess farið frá því að vera fátækasta land Norður-Evrópu í að vera eitt það ríkasta. Ein þeirra ákvarðana sem þjóðin þarf að taka er hvort hún vilji sitja við borðið í Evrópusambandinu þegar ákvarðanir eru teknar þar. Loksins eru komin stjórnvöld sem treysta þjóðinni til að svara þeirri spurningu sjálf, í stað þess að láta hræðslu flokka sem var hafnað í síðustu kosningum við eigin samborgara stýra því hvernig Evrópusamstarfi Íslands sé háttað.

Leiðir til að hafna því að auður endurspegli siðferðilega yfirburði
Á Íslandi er reglulega rifist um erfðafjárskatt og hvort hann sé réttlætanlegur. Þeir sem stundi „toppinn niður“ pólitík telja hann gríðarlegt óréttlæti á meðan að þeir sem trúa á að það sé til eitthvað sem heitir samfélag telja hann ekki einungis réttlátan heldur beinlínis nauðsynlegan. Það er nefnilega þannig að þeir sem erfa háar fjárhæðir eru ekki verðmeira fólk en sá sem erfir ekkert. Og ef tilfærsla á eignum milli kynslóða er ekki skattlögð þá mun auður einnar slíkrar stjórna þeirri næstu.

Flokkarnir sem töpuðu borguðu þrisvar sinnum meira fyrir hvert atkvæði en sigurvegararnir
Það er mjög mismunandi hvað stjórnmálaflokkar þurfa að eyða af peningum til að ná hylli íslenskra kjósenda og í síðustu þingkosningum var engin fylgni milli þess sem eytt var og árangurs. Tveir aldnir valdaflokkar eyddu til að mynda samtals um 330 milljónum króna í að fá verstu kosninganiðurstöðu sína í sögunni upp úr kjörkössunum. Fjarhægriflokkur eyddi 140 milljónum króna og situr uppi með verulega neikvætt eigið fé fyrir vikið einungis til að enda enn eitt kjörtímabilið í stjórnarandstöðu. Á meðan voru það flokkarnir sem fá minnst af peningum úr atvinnulífinu og greiddu langminnst fyrir hvert greitt atkvæði sem stóðu uppi sem sigurvegarar og mynduðu ríkisstjórn.

Það að endurtaka lygar oft gerir þær ekki að sannleika
Þrátt fyrir að engir skattar séu að hækka um áramót þá heldur stjórnarandstaðan því staðfastlega fram að hér sé allt morandi í skattahækkunum. Þrátt fyrir að gjaldabreytingar séu að uppistöðu mjög hóflegar í öllum samanburði við síðustu ár öskrar sami hópur um að þær séu fordæmalausar. Þrátt fyrir að aukin útgjöld ríkissjóðs séu fyrst og fremst vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og verðlagsbreytinga, skuldir hans hafi lækkað gríðarlega og hallalaus rekstur í augsýn er látið eins og það sé verið að keyra landið fram af bjargbrún. Þrátt fyrir að verið sé að afnema skattastyrki sem nýtast fáum og ríkum er logið til um áhrif á alla. Svona vinnur örvæntingarfullt fólk fullt af valdmissisgremju þegar fólkið í landinu velur aðra til að stjórna. Aðra sem eru að gera nákvæmlega það sem þeir sögðust ætla að gera fyrir kosningar, að baka enn stærri köku þar sem hráefnið er sanngirni, jöfnuður og velferð fyrir alla.

Þegar varaformaður hætti óvart að flauta og fór að syngja hástöfum
Miðflokkurinn hefur nú opinberað, að einhverju leyti óvart, að hann er á móti EES-samningnum og vill takmarka fjölda þeirra sem búa á Íslandi. Hann stendur nú frammi fyrir því að svara spurningum um hvernig samfélagið á að líta út ef mikilvægasti viðskiptasamningur Ísland – íslenskt hagkerfi hefur fimmfaldast að umfangi frá því að hann tók gildi – verður ekki lengur virkur. Enn fremur þarf hann að segja nákvæmlega hversu marga íbúa landið má hafa samkvæmt hugmyndum Miðflokksins, hvernig samsetning þess íbúafjölda má vera og hvernig flokkurinn aðgreinir „alvöru Íslendinga“ frá hinum.

Löt kyrrstöðustjórnmál koma ekki lengur í veg fyrir stórar ákvarðanir
Það kostar að viðhalda vegakerfi og ráðast í samgönguúrbætur samfélaginu öllu til heilla. Tekjustofnarnir sem áttu að standa undir þessu voru látnir drabbast niður í tíð síðustu ríkisstjórnar. Fyrir vikið er ástand vega óboðlegt og lítið sem ekkert hefur verið gert í nýframkvæmdum. Til að snúa þessari þróun við þarf að láta þá sem nota vegina borga rétt verð fyrir. Það verður gert með því að færa innheimtu notendagjalda á eigendur ökutækja til nútímans, í stað þess að rukka þau við bensíndælur. Þetta ætlaði síðasta ríkisstjórn að gera en gat ekki klárað og er nú á móti eigin máli þegar getumeira fólk er að sigla málinu heim.

Stjórnarandstaða sem virðist ekki vilja láta taka sig alvarlega
Álit flokkanna sem mynda minnihlutann á Alþingi á fjárlögum liggur nú fyrir. Hún er sambland af orðasalati sem gæti fyllt hálfa hefðbundna skáldsögu, öfugum dyggðarskreytingum og hreint ótrúlegum hugmyndum um að breyta Íslandi í tilraunaeldhús fyrir frjálshyggjubrjálæði. Ef þetta yrði innleitt myndi það grafa undan samfélagsgerðinni eins og við þekkjum hana og fara langleiðina með því að ganga frá velferðarkerfinu sem hún byggir á. Allt svo hægt yrði að lækka skatta á efnaðasta fólkið, draga úr eftirliti, einkavæða nær öll ríkisfyrirtæki og veikja mikilvægar lýðræðisstoðir. Sem betur fer er ríkisstjórn í landinu sem er með allt aðrar áherslur. Ríkisstjórn sem sýnir ábyrgð, vinnur fyrir alla og vill auka velferð með vexti.

Skrattinn málaður á vegginn án innistæðu í rammpólitískum tilgangi
Kvótinn sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki halda á, en er í eigu þjóðarinnar, er metinn á yfir 500 milljarða króna í bókum þeirra. Sú tala er þó sýnilega vanmetin og raunvirði kvótans, yrði hann seldur á markaðsvirði, vel rúmlega tvisvar sinnum sú tala. Það gríðarlega eigið fé sem bunkast hefur upp í geiranum á undanförnum árum setur hann í sérdeild í íslensku atvinnulífi. Þrátt fyrir endalausar tilraunir stjórnmálamanna, fjölmiðla og lobbýista stórútgerða til að mála upp svarta mynd af stöðu sjávarútvegs í rammpólitískum tilgangi er staðan frábær og mjög bjart fram undan. Verð halda áfram að hækka, loðnukvóti er á leiðinni, mikil fjárfesting síðustu ár mun skila stóraukinni hagkvæmni og tollastríð virðast ekki hafa nein teljandi áhrif á aðgengi.

Það sem gerist þegar skrúfað er frá peningakrönum
Afar mikilvægt er að fjölga stoðunum undir íslensku atvinnulífi. Skapa störfin sem þjóðin er að mennta sig til að sinna, tryggja að þau séu framleiðni aukandi, vel borguð og staðsett um allt land. Til þess að stuðla að þessu hafa stjórnvöld í gegnum tíðina stutt við fjölmargar atvinnugreinar með beinum greiðslum úr ríkissjóði. Sumar eru kallaðar styrkir, aðrar endurgreiðslur. Um er að ræða tugi milljarða króna á ári og því mikilvægt að þeim sé úthlutað af ábyrgð og fagmennsku. Síðasta ríkisstjórn gerði það ekki, heldur skrúfaði frá peningakrönum, sinnti litlu eftirliti og mældi ekki árangur. Styrkirnir lentu ekki allir þar sem þeir áttu að lenda. Nú hefur orðið breyting á því.

Flokkur pólitískra púðurskota lítur til fortíðar eftir nýrri framtíð
Helsti valdaflokkur Íslandssögunnar er í vanda. Fylgið er eitt það minnsta sem hann hefur nokkru sinni mælst með og annar flokkur, hægra megin við, er að sjúga til sín þjóðernislegt íhaldsfylgi mánuði til mánaðar. Einungis rétt tæplega þriðjungur flokksmanna segir nýjan flokksformann hafa staðið sig vel og sama hlutfall þeirra telur hana raunar hafa staðið sig illa. Til að bregðast við þessari krísu blés Sjálfstæðisflokkurinn til ásýndarfundar. Þar kom fram að fortíðin er nýja ásýndin hjá flokki sem vill helst bara standa kyrr.

Pólitískt yfirprjón vegna þess að planið er að virka
Íslenskt hagkerfi stendur styrkum fótum. Ábyrg efnahagsstjórn er að koma Íslandi aftur á rétta braut eftir piss í skóinn - vegferð síðustu ríkisstjórna. Verið er að endurheimta jafnvægið. Fram undan er stærsta framkvæmdartímabil sögunnar og verðmætasköpun sem byggir á aukinni framleiðni sem hefur það markmið að skapa ný og vel borgandi störf út um allt land. Við þær aðstæður leitar minnihlutinn á þingi í uppnefningasmiðju hlaðvarpa eftir pólitískri leiðsögn. Og staðfestir um leið eigin vangetu.

