- Kjarnyrt
- Archive
- Page 0
Archive
Hvað var verið að fela?
Á Íslandi eiga nokkrar fjölskyldur mörg hundruð milljarða króna auð sem þær hafa eignast með nýtingu á þjóðareign. Þann auð hafa þær nýtt til að kaupa sig inn í óskyldan rekstur í viðskiptalífinu. Fyrir liggja upplýsingar um sterka stöðu þeirra í smásölu, fjölmiðlum, fasteignaviðskiptum, heildsölu, fjármálakerfinu og jafnvel í sósugerð. Heildarmyndin um ítök stærstu eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna í íslensku samfélagi liggur þó ekki fyrir og fyrri tilraunir til að varpa ljósi á hana hafa mætt mótstöðu fyrri stjórnvalda. Nú á loksins að birta þessa mynd enda engin þörf á leynd ef enginn hefur neitt að fela.

Þeir sem nota kúbein til að sundra og hinir sem vilja frekar líma hluti saman
Hræðsla er megininntakið í þeirri pólitík sem gömlu valdaflokkarnir á Íslandi og afsprengi þeirra stunda. Þeir vilja að hópar innan samfélagsins séu hræddir við hvern annan og allir eiga að vera hræddir við allt sem kemur að utan. Þeir eru líka hræddir við að leyfa þjóðinni að taka eðlilegt samtal og framkvæma hagsmunamat á stórum spurningum sem snerta lífsgæði hennar beint, og skíthræddir við að leyfa henni að kjósa um slíkt. Hræddastir eru þó draugar fortíðar við fólk sem vill brjóta upp kerfi sem hafa það sem meginmarkmið að útdeila tækifærum, upplýsingum og peningum annarra til útvalinna.

Samfélag sem á tíu þúsund milljarða þarf að virka fyrir alla, ekki bara suma
Á síðasta ári urðu til næstum 600 nýir milljarðar króna í auð á Íslandi. Ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín stærra hlutfall þessa nýja auðs en þau hafa gert frá árinu 2007, þegar uppblásin bankabóla ýkti allt. Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum sem hafa falið í sér aukna skattstyrki til best settu hópa samfélagsins, húsnæðisstuðning sem aðallega hefur verið beint til þeirra tekjuhæstu og ívilnað fjármagnseigendum með ýmsum hætti hefur aukið á þessa lífskjaragliðnun. Nú er það tímabil búið. Hér eftir verður lögð áhersla á að bæta líf allra, ekki bara sumra.

Þurfa tekjuhæstu hópar samfélagsins að fá milljarða í skattaafslátt á hverju ári?
Sokkarnir sem ríkisstjórnin er að tína upp af gólfinu eftir þá sem rusluðu til eru af ýmsum toga og í alls konar litum. Sumir þeirra eru skattastyrkir sem veittir hafa verið til tekjuhæstu hópa samfélagsins á undanförnum árum og eru að styðja við hópa sem þurfa ekki á stuðningi að halda. Aðrir stuðla beinlínis að aukinni misskiptingu á Íslandi. Ákvarðanir um að hætta slíkum millifærslum úr ríkissjóði eru ekki alltaf vinsælar hjá þeim sem missa þann sokk af fætinum. En þær eru réttar til að koma landinu á betri stað.

Það verður hætt að velja sigurvegara á Íslandi
Hagvöxtur á mann á Íslandi hefur verið mun minni en í samanburðarlöndum, enda nánast enginn á síðustu árum. Sú atvinnustefna sem rekin var hérlendis fól í sér að stjórnvöld völdu sigurvegara í stað þess að þau sköpuðu tækifæri til vaxtar með samstarfi við atvinnulífið. Þetta er nú breytt og yfir stendur vinna við að móta atvinnustefnu til tíu ára. Hún snýst um aukna verðmætasköpun, hefur það markmið að hagvöxtur verði drifinn áfram af auknum útflutningi og að vel launuðum störfum fjölgi út um allt land.

Guggan er sjaldnast áfram gul og það hefur ekkert með veiðigjöld að gera
Áratugum saman hafa þær breytur í rekstri útgerða sem hafa mest áhrif á gangverk hans verið skýrar. Þær eru raungengi krónu, aðstæður á mörkuðum, fjármagnskostnaður á hverjum tíma, úthlutanir aflaheimilda, mögulegur aflabrestur og auðvitað sú staðreynd að stanslaust hefur verið hagrætt í geiranum samhliða því að stærri útgerðir taka yfir minni með tilheyrandi lokunum og tilfærslum. Sú hagræðing virkar vanalega þannig að útgerðir eru keyptar, vinnslum þeirra lokað og kvótinn er færður yfir á önnur skip. Þetta skilar útgerðum stórauknum hagnaði og efnahagslífinu meiri framlegð. Kerfið þjappast saman. Það hefur ekkert breyst þótt stórútgerðir sæti nú færis og kenni réttlatri leiðréttingu veiðigjalda um allt milli himins og jarðar.

Happdrætti kynslóðanna er brot á samfélagssáttmála
Fyrir nokkrum árum sagði seðlabankastjóri að lífskjör fólks á Íslandi réðust að miklu leyti af stöðu þess á fasteignamarkaði, á því hvenær fólk kæmist inn á þann markað og á hvaða aldri. Þeir sem voru heppnir í þessu sveiflukennda happdrætti kynslóðanna hafa séð eignir sínar hækka í verði langt umfram verðlag og laun. Þeir sem voru það óheppnir að verða fullorðnir á röngu ári standa margir hverjir frammi fyrir óyfirstíganlegum hindrunum gagnvart því að koma öruggu þaki yfir höfuðið. Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að slétta þessar sveiflur.

Að halda partí, rusla allt út, verða fjarlægður en öskra svo á þá sem taka til
Ef efnahagsstjórn síðustu ríkisstjórnar er sett í líkingu við heimilisbókhald þá gekk hún út á það að útgjöld væru alltaf meiri en innkoma. Heimilisfólkið vildi samt hvorki grípa til aðgerða til að auka innkomuna né draga úr útgjöldunum. Það hentaði ekki. Þess í stað jók hún bara yfirdráttinn. Svo lauk þessu partíi og ábyrgara fólk tók við. Nú stendur yfir tiltekt og viðhald svo þjóðaríbúðin komist í stand á ný. Fyrrverandi heimilisfólk í stjórnarráðinu hangir á meðan á glugganum og reynir að kenna þeim sem eru að þrífa upp eftir það um óreiðuna.

Nýtt efnahagslegt stýrikerfi í stað uppfærslu á úr sér gengnum hugbúnaði
Verið er að taka stór og örugg skref í að uppfæra stýrikerfið í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Tími óvandaðra og heimatilbúinna uppfærslna á kerfum sem þjóna ekki lengur tilgangi sínum nema fyrir fáa sérhagsmunahópa er liðinn. Framtíðin er ábyrg efnahagsstjórn í stað þess að reka ríkið stanslaust á dýrum yfirdrætti, kvik og þjónandi stjórnsýsla byggð á heildarhagsmunum og fjölbreytt atvinnulíf þar sem áhersla er lögð á framleiðni og skýrt tillit tekið til áhrifa vaxtar á önnur svið samfélagsins. Ísland 2.0 er handan við hornið.

Við hvað eruð þið eiginlega hrædd?
Tveir af hverjum þremur landsmönnum eru ánægðir með þær stóru ákvarðanir sem teknar hafa verið nýverið á sviði stjórnmálanna. Almenningur skynjar, eftir margra ára kyrrstöðustjórnmál, að það sé hægt að breyta hlutunum með rétta fólkinu og réttu flokkunum. Það er verið að draga úr sundrungu og byggja upp traust eftir áralangan klofning þar sem almenningur trúði því ekki að ráðamenn hefðu gengið sinna erinda. Fyrir vikið er komin fram tiltrú á stjórnmál og óþol fyrir pólitískri aðferðafræði sem byggir á því að hræða fólk, giska í eyðurnar og slást við ímyndaða strámenn. Aðferðarfræði sem minnihlutinn ætlar samt að halda áfram að beita í umræðum um samstarf Íslands við Evrópu.

Skapandi túlkun á tölum til að barna fullyrðingu um sprengingu
Valdir fjölmiðlar hafa nýverið fjallað um atvinnumál erlendra ríkisborgara á Íslandi og það sem þau kalla „sprengingu“ í kostnaði vegna útlendingamála. Umfjöllunin er grundvölluð á saman- og úttektum Samtaka skattgreiðenda. Þegar rýnt er í opinberar tölur og samhengi þá er annað erfitt en að klóra sér ansi fast í hausnum yfir þeim ályktunum og fullyrðingum sem bornar eru á torg á grundvelli þeirra.

Er þjóðin bara að ruglast?
Örvinglun hefur gripið minnihlutann á Alþingi. Hann er sannfærður um að Íslendingar hafi einfaldlega ruglast þegar þeir kusu ranga flokka til valda í haust. Séu eitthvað ringlaðir þegar þeir segja í öllum könnunum að þeir kunni að meta verk og stefnu þessara sömu flokka. Skilji greinilega ekki hversu mikilvægt það var að stjórnmálaöfl sem var hafnað í kosningum reyni að taka lýðræðið úr sambandi ef þau fá ekki að ráða. Á meðan minnihlutinn ráfar um í myrkrinu í leit að einhvers konar pólitískum persónuleika þá er eina vöruframboðið sem hann getur boðið upp á hræðsluáróður og samsæriskenningar af ýmsum toga. Og fólkið í landinu sér í gegnum það.
