- Kjarnyrt
- Archive
- Page 0
Archive
Þjóð sem styður leiðrétt veiðigjöld, er andvíg málþófi og kann að meta ríkisstjórnina
Siðustu daga hefur birst staðfesting á því að íslensk þjóð kann ekki að meta málþóf, tafarleiki og heilaga skyldu minni flokka í stjórnarandstöðu til að koma í veg fyrir framgang þjóðþrifamála. Það hefur komið í ljós að stuðningur við sitjandi ríkisstjórn er sá mesti sem mælst hefur svona mörgum mánuðum eftir kosningar frá bankahruni. Það liggur fyrir að næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum styðja leiðréttingu veiðigjalds en undir fjórðungur er andvígur málinu. Og það er skýrt að víglína stuðnings við það frumvarp liggur ekki milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Hvers virði er húsnæðisöryggi?
Einstaklingshyggja felur í sér að það sé ekkert samfélag, bara einstaklingar eða hópar sem takast á um gæðin og verðmætin. Hún byggir á þeirri hugmynd að ákveðið fólk sem fæðist inn í þessa hópa eða er fengið inn í þá sé með einhverjum hætti verðmætara en annað. Það eigi meira skilið. Þessi hugmyndafræði birtist skýrt í helstu áherslum Viðskiptaráðs, hugveitu hægri stjórnmála á Íslandi, sem er kyrfilegur hluti af valdakerfi þeirra. Nýjasta útspil þess snýst um að það líti á íbúðir sem fjárfestingavöru til að græða á, ekki húsnæði til að búa í.

Hvað er réttlátt og sanngjarnt að leigjandi borgi fyrir að græða hundruð milljarða?
Frumvarp um leiðrétt veiðigjöld verður brátt afgreitt út úr nefnd. Fram undan er lokaslagurinn í stríðinu um réttláta skiptingu á arðsemi af nýtingu auðlindar milli eiganda hennar og þeirra sem leigja aðgang að henni. Hingað til hefur sú skipting verið þannig að eigandinn, íslenska þjóðin, hefur borið skarðan hlut frá borði. Nú stendur til að stíga réttlátt og mikilvægt skref til að breyta því. Útreikningar sem gerðir voru fyrir stórútgerðina sýna svart á hvítu að það skref mun ekki með nokkrum hætti setja hana á hausinn. Þvert á móti.

Kyrrstaðan hefur verið kyrfilega rofin
Efnahagslegur stöðugleiki er á Íslandi. Örugg skref hafa verið stigin í rétta átt til að ná honum. Leyst hefur verið úr erfiðum málum og mikilvægar kerfisbreytingar boðaðar. Hallalaus fjárlög og fjárfestingaátak til að vinna á mörg hundruð milljarða króna innviðaskuld eru framundan. Ráðist verður í hagræðingu án þess að þjónusta verði skert og viðbótartekjur sóttar á breiðustu bök samfélagsins til að fjármagna þennan árangur. Samhliða hefur verðbólga hjaðnað og vextir lækkað jafnt og þétt. Almenningur mun finna fyrir þessu í veskinu, í bættri þjónustu og meira öryggi.

Virk andstaða innan stjórnarandstöðu leitar að pólitískri sjálfsmynd
Það er ekki gaman í stjórnarandstöðu um þessar mundir. Flokkar sem eru vanir því að stýra landinu eru nú úti í kuldanum þjakaðir af innanmeinum, njóta sögulega lítilla vinsælda á meðal kjósenda og skilnaðarbarnið þeirra situr við stýrið á andstöðuvagninum vegna þess að foreldrarnir eru í of miklu uppnámi til að keyra sjálfir. Pólitískt virðast gömlu valdaflokkarnir einungis hafa einn tilgang: að koma í veg fyrir að nokkrar fjölskyldur og eitt kaupfélag sem eiga hundruð milljarða króna greiði markaðsverð fyrir afnot af auðlind. Mál sem mikill meirihluti kjósenda styður. Allt þetta spilast nú út fyrir allra augum í fjölmiðlum.

Það þarf traust til þess að selja ríkisbanka
Ein best heppnaða einkavæðing Íslandssögunnar er yfirstaðin. Íslenska ríkið seldi 42,5 prósenta hlut í banka í gegnsæju og vel undirbúnu ferli þar sem almenningur var settur í forgang. Sami almenningur tók vel í þessa aðferðarfræði og keypti einfaldlega allt sem var í boði. Fyrir vikið fjölgaði eigendum Íslandsbanka um tugi þúsunda. Þetta er mikið frávik frá síðustu bankasölu, sem þrjár eftirlitsstofnanir hafa komist að niðurstöðu um að hafi verið fúsk og í einhverjum tilvikum ekki í samræmi við lög. Til að selja ríkisbanka þarf fólk að trúa því að það sé gert með heildarhagsmuni að leiðarljósi, ekki til að fámennir hópar geti makað krókinn.

Enginn sjávarútvegur hefur fengið meiri meðgjöf frá ríkinu en sá íslenski
Talsmenn stórútgerða tala mikið um að þær séu að keppa á útivelli í erfiðri alþjóðlegri samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg annarra þjóða. Þess vegna sé lítið sem ekkert svigrúm til að borga meira en rétt það sem kostar að reka þjónustu við útveginn í veiðigjöld. Þegar saga þessa atvinnuvegar, sem sannarlega er mikilvæg stoð undir íslenska efnahagskerfinu og hefur náð miklum árangri á síðustu áratugum, er skoðuð er þó erfitt að álykta annað en að hann hafi notið meiri stuðnings hins opinbera en flestir.

Bábiljur um fjárhagsleg vandræði Reykjavíkur byggja á engu nema sandi
Reykjavíkurborg skilaði rekstrarniðurstöðu sem er langt umfram áætlun borgarinnar á síðasta ári. Fjárhagsleg staða höfuðborgarinnar er, ásamt Kópavogi, mun heilbrigðari en annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fer hratt batnandi. Samt er sú hugmynd ólseig í huga margra að Reykjavík brenni og rambi á barmi gjaldþrots. Hún á sér engar rætur í staðreyndum eða þeim lykiltölum sem notaðar eru til að mæla fjárhagslegan styrkleika sveitarfélaga.

Takk SFS fyrir að hneppa niður að nafla, þyrla í hvítvíni og reyna að gaslýsa þjóð
Það ber að fagna rándýrri auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í henni opinberast hversu aftengd fáveldisstéttin í sjávarútvegi er orðin raunveruleikanum og samfélaginu sem bjó hana til. Það staðfestist líka að stórútgerðin er enn að styðjast við sömu handbókina um leikjafræði sem nýttist henni svo vel í að hræða þjóðina til hlýðni árið 2012. Nú er munurinn hins vegar sá að þjóðin er ekki lengur hrædd og landinu er stýrt af fólki sem þorir. Þjóðin vill leiðrétta veiðigjöld, skilur hvernig það er gert og veit að það er nægt svigrúm til að borga meira.

Skattahækkunarlygin
Síðasta ríkisstjórn réðst í fjöldann allan af ófjármögnuðum skattalækkunum og -ívilnunum sem gögnuðust fyrst og síðast þeim hópum samfélagsins sem hafa mest á milli handanna. Nú stendur til að bæta skattskil, loka glufum í skattkerfinu og fækka undanþágum. Samhliða stendur til að auka skilvirkni og leiðrétta gjaldtöku þar sem við á. Það er í samræmi við ábendingar alþjóðlegra stofnana og liður í aðgerðum sem ætlað er að leiða af sér stóraukna fjárfestingu í innviðum, hallalaus fjárlög og því að krónunum í veskjum þorra venjulegs vinnandi fólks fjölgi um hver mánaðamót. Þetta kallar stjórnarandstaðan skattahækkanir. Ríkisstjórnin kallar þetta hins vegar skynsemi og réttlæti.

Áróðursstríðið sem þjóðin verður að vinna
Stórútgerðin og fylgitungl hennar segja leiðréttingu veiðigjalda vera brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, að hún hagnist ekki óhoflega og borgi raunar þegar allt of mikið til samfélagsins. Það sé einfaldlega ekkert svigrúm til að borga meira. Ríkisstjórnin, sem fer með eignarhaldið á auðlindinni fyrir hönd þjóðarinnar, er á annarri skoðun og byggir það á staðreyndum úr raunheimum. Þjóðin sem kaus ríkisstjórnina til valda er henni sammála. Nú þarf að anda í kviðinn, standa af sér hræðsluáróðurinn og klára málið. Í eitt skipti fyrir öll.

Listin að nota litla manninn sem skjöld fyrir breiðu bökin
Síðasta ríkisstjórn lagði mesta áherslu á að ráðast í ófjármagnaðar skattalækkanir á breiðustu bökin í samfélaginu og mjög dýrar ófjármagnaðar aðgerðir til að bregðast við aðstæðum. Afleiðingin var linnulaus hallarekstur og ríkissjóður sem reka átti á yfirdrætti í níu ár. Ný ríkisstjórn hefur þegar snúið þessu við. Hún ætlar að auka tekjur ríkissjóðs með því að sækja slíkar á breiðu bökin, meðal annars með því að loka skattaglufum, en lækka daglegan kostnað venjulegs vinnandi fólks með efnahagslegum stöðugleika sem dregur hratt úr vaxtagjöldum heimilanna í landinu.
