- Kjarnyrt
- Archive
- Page -1
Archive
Happdrætti kynslóðanna er brot á samfélagssáttmála
Fyrir nokkrum árum sagði seðlabankastjóri að lífskjör fólks á Íslandi réðust að miklu leyti af stöðu þess á fasteignamarkaði, á því hvenær fólk kæmist inn á þann markað og á hvaða aldri. Þeir sem voru heppnir í þessu sveiflukennda happdrætti kynslóðanna hafa séð eignir sínar hækka í verði langt umfram verðlag og laun. Þeir sem voru það óheppnir að verða fullorðnir á röngu ári standa margir hverjir frammi fyrir óyfirstíganlegum hindrunum gagnvart því að koma öruggu þaki yfir höfuðið. Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að slétta þessar sveiflur.

Að halda partí, rusla allt út, verða fjarlægður en öskra svo á þá sem taka til
Ef efnahagsstjórn síðustu ríkisstjórnar er sett í líkingu við heimilisbókhald þá gekk hún út á það að útgjöld væru alltaf meiri en innkoma. Heimilisfólkið vildi samt hvorki grípa til aðgerða til að auka innkomuna né draga úr útgjöldunum. Það hentaði ekki. Þess í stað jók hún bara yfirdráttinn. Svo lauk þessu partíi og ábyrgara fólk tók við. Nú stendur yfir tiltekt og viðhald svo þjóðaríbúðin komist í stand á ný. Fyrrverandi heimilisfólk í stjórnarráðinu hangir á meðan á glugganum og reynir að kenna þeim sem eru að þrífa upp eftir það um óreiðuna.

Nýtt efnahagslegt stýrikerfi í stað uppfærslu á úr sér gengnum hugbúnaði
Verið er að taka stór og örugg skref í að uppfæra stýrikerfið í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Tími óvandaðra og heimatilbúinna uppfærslna á kerfum sem þjóna ekki lengur tilgangi sínum nema fyrir fáa sérhagsmunahópa er liðinn. Framtíðin er ábyrg efnahagsstjórn í stað þess að reka ríkið stanslaust á dýrum yfirdrætti, kvik og þjónandi stjórnsýsla byggð á heildarhagsmunum og fjölbreytt atvinnulíf þar sem áhersla er lögð á framleiðni og skýrt tillit tekið til áhrifa vaxtar á önnur svið samfélagsins. Ísland 2.0 er handan við hornið.

Við hvað eruð þið eiginlega hrædd?
Tveir af hverjum þremur landsmönnum eru ánægðir með þær stóru ákvarðanir sem teknar hafa verið nýverið á sviði stjórnmálanna. Almenningur skynjar, eftir margra ára kyrrstöðustjórnmál, að það sé hægt að breyta hlutunum með rétta fólkinu og réttu flokkunum. Það er verið að draga úr sundrungu og byggja upp traust eftir áralangan klofning þar sem almenningur trúði því ekki að ráðamenn hefðu gengið sinna erinda. Fyrir vikið er komin fram tiltrú á stjórnmál og óþol fyrir pólitískri aðferðafræði sem byggir á því að hræða fólk, giska í eyðurnar og slást við ímyndaða strámenn. Aðferðarfræði sem minnihlutinn ætlar samt að halda áfram að beita í umræðum um samstarf Íslands við Evrópu.

Skapandi túlkun á tölum til að barna fullyrðingu um sprengingu
Valdir fjölmiðlar hafa nýverið fjallað um atvinnumál erlendra ríkisborgara á Íslandi og það sem þau kalla „sprengingu“ í kostnaði vegna útlendingamála. Umfjöllunin er grundvölluð á saman- og úttektum Samtaka skattgreiðenda. Þegar rýnt er í opinberar tölur og samhengi þá er annað erfitt en að klóra sér ansi fast í hausnum yfir þeim ályktunum og fullyrðingum sem bornar eru á torg á grundvelli þeirra.

Er þjóðin bara að ruglast?
Örvinglun hefur gripið minnihlutann á Alþingi. Hann er sannfærður um að Íslendingar hafi einfaldlega ruglast þegar þeir kusu ranga flokka til valda í haust. Séu eitthvað ringlaðir þegar þeir segja í öllum könnunum að þeir kunni að meta verk og stefnu þessara sömu flokka. Skilji greinilega ekki hversu mikilvægt það var að stjórnmálaöfl sem var hafnað í kosningum reyni að taka lýðræðið úr sambandi ef þau fá ekki að ráða. Á meðan minnihlutinn ráfar um í myrkrinu í leit að einhvers konar pólitískum persónuleika þá er eina vöruframboðið sem hann getur boðið upp á hræðsluáróður og samsæriskenningar af ýmsum toga. Og fólkið í landinu sér í gegnum það.

Þjóð sem styður leiðrétt veiðigjöld, er andvíg málþófi og kann að meta ríkisstjórnina
Siðustu daga hefur birst staðfesting á því að íslensk þjóð kann ekki að meta málþóf, tafarleiki og heilaga skyldu minni flokka í stjórnarandstöðu til að koma í veg fyrir framgang þjóðþrifamála. Það hefur komið í ljós að stuðningur við sitjandi ríkisstjórn er sá mesti sem mælst hefur svona mörgum mánuðum eftir kosningar frá bankahruni. Það liggur fyrir að næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum styðja leiðréttingu veiðigjalds en undir fjórðungur er andvígur málinu. Og það er skýrt að víglína stuðnings við það frumvarp liggur ekki milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Hvers virði er húsnæðisöryggi?
Einstaklingshyggja felur í sér að það sé ekkert samfélag, bara einstaklingar eða hópar sem takast á um gæðin og verðmætin. Hún byggir á þeirri hugmynd að ákveðið fólk sem fæðist inn í þessa hópa eða er fengið inn í þá sé með einhverjum hætti verðmætara en annað. Það eigi meira skilið. Þessi hugmyndafræði birtist skýrt í helstu áherslum Viðskiptaráðs, hugveitu hægri stjórnmála á Íslandi, sem er kyrfilegur hluti af valdakerfi þeirra. Nýjasta útspil þess snýst um að það líti á íbúðir sem fjárfestingavöru til að græða á, ekki húsnæði til að búa í.

Hvað er réttlátt og sanngjarnt að leigjandi borgi fyrir að græða hundruð milljarða?
Frumvarp um leiðrétt veiðigjöld verður brátt afgreitt út úr nefnd. Fram undan er lokaslagurinn í stríðinu um réttláta skiptingu á arðsemi af nýtingu auðlindar milli eiganda hennar og þeirra sem leigja aðgang að henni. Hingað til hefur sú skipting verið þannig að eigandinn, íslenska þjóðin, hefur borið skarðan hlut frá borði. Nú stendur til að stíga réttlátt og mikilvægt skref til að breyta því. Útreikningar sem gerðir voru fyrir stórútgerðina sýna svart á hvítu að það skref mun ekki með nokkrum hætti setja hana á hausinn. Þvert á móti.

Kyrrstaðan hefur verið kyrfilega rofin
Efnahagslegur stöðugleiki er á Íslandi. Örugg skref hafa verið stigin í rétta átt til að ná honum. Leyst hefur verið úr erfiðum málum og mikilvægar kerfisbreytingar boðaðar. Hallalaus fjárlög og fjárfestingaátak til að vinna á mörg hundruð milljarða króna innviðaskuld eru framundan. Ráðist verður í hagræðingu án þess að þjónusta verði skert og viðbótartekjur sóttar á breiðustu bök samfélagsins til að fjármagna þennan árangur. Samhliða hefur verðbólga hjaðnað og vextir lækkað jafnt og þétt. Almenningur mun finna fyrir þessu í veskinu, í bættri þjónustu og meira öryggi.

Virk andstaða innan stjórnarandstöðu leitar að pólitískri sjálfsmynd
Það er ekki gaman í stjórnarandstöðu um þessar mundir. Flokkar sem eru vanir því að stýra landinu eru nú úti í kuldanum þjakaðir af innanmeinum, njóta sögulega lítilla vinsælda á meðal kjósenda og skilnaðarbarnið þeirra situr við stýrið á andstöðuvagninum vegna þess að foreldrarnir eru í of miklu uppnámi til að keyra sjálfir. Pólitískt virðast gömlu valdaflokkarnir einungis hafa einn tilgang: að koma í veg fyrir að nokkrar fjölskyldur og eitt kaupfélag sem eiga hundruð milljarða króna greiði markaðsverð fyrir afnot af auðlind. Mál sem mikill meirihluti kjósenda styður. Allt þetta spilast nú út fyrir allra augum í fjölmiðlum.

Það þarf traust til þess að selja ríkisbanka
Ein best heppnaða einkavæðing Íslandssögunnar er yfirstaðin. Íslenska ríkið seldi 42,5 prósenta hlut í banka í gegnsæju og vel undirbúnu ferli þar sem almenningur var settur í forgang. Sami almenningur tók vel í þessa aðferðarfræði og keypti einfaldlega allt sem var í boði. Fyrir vikið fjölgaði eigendum Íslandsbanka um tugi þúsunda. Þetta er mikið frávik frá síðustu bankasölu, sem þrjár eftirlitsstofnanir hafa komist að niðurstöðu um að hafi verið fúsk og í einhverjum tilvikum ekki í samræmi við lög. Til að selja ríkisbanka þarf fólk að trúa því að það sé gert með heildarhagsmuni að leiðarljósi, ekki til að fámennir hópar geti makað krókinn.
